Anna Kol­brún Árna­dóttir, þing­maður Mið­flokksins, hyggst ekki segja af sér þing­mennsku þrátt fyrir að hafa tekið virkan þátt í hljóð­rituðum sam­ræðum þriggja annarra þing­manna Mið­flokksins og tveggja úr Flokki fólksins á Klaustur bar í miðbæ Reykjavíkur að kvöldi 20. nóvember.

Anna Kolbrún segist gera sér grein fyrir því að hún hafi látið samræðurnar, sem stóðu yfir í rúmar þrjár klukkustundir, viðgangast. „En á sama tíma geri ég mér fulla grein fyr­ir því að það er ekki á mína ábyrgð að stoppa það þegar drukkn­ir menn tala. Ég hefði átt að fara fyrr en ég gerði. Það eru al­veg ótrú­lega mörg „Ég hefði“,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta var of mikið“

Hún segist hafa yfirgefið staðinn fyrst þingmanna Miðflokksins en þegar út var komið hafi hún sagt „þetta var of mikið“ við Ólaf Ísleifsson, fyrrverandi þingmann Flokks fólksins, sem einnig var á staðnum. Á meðan samræðum stóð hafi hún drukkið einn stóran bjór og einn lítinn.

Anna hefur legið undir feldi undanfarna sex daga og íhugað stöðu sína á þingi. Hún segir að þessir dagar hafi reynst henni afar erfiðir. Til að mynda hafi hún brostið í grát á fundi formanna þingflokkanna í gær. 

Samkvæmt skoðanakönnun Maskínu vill yfirgnæfandi hluti kjósenda að þingmennirnir sex segi af sér vegna þeirra orða sem þau létu falla á barnum í lok nóvember. Flestir vilja að Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason láti af þingmennsku, eða 91 og 90 prósent. Alls vilja tæplega þrír af hverjum fjórum að Anna Kolbrún segi af sér en nú liggur fyrir að hún ætlar ekki að verða við því. 

Tveim vikið úr flokki, tveir í leyfi og tvö sitja áfram

Orðin „Freyja eyja“ voru meðal þeirra orða sem Anna Kolbrún lét falla í samræðum þingmannanna þegar nafn baráttukonunnar og fyrrverandi þingmannsins Freyju Haraldsdóttur bar á góma. Í kjölfarið fylgdi hljóð frá einhverjum þingmannanna sem talað hefur verið um sem eftirhermu sels en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur þvertekið fyrir slíkt. 

Í skýringum Sigmundar í símtali við Freyju segir að uppnefnið „Freyja eyja“ hafi orðið til við framkvæmdir á skrifstofu Miðflokksins þegar fjarlægja þurfti vegg þar til að bæta aðgengi.

Þeim Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni var fyrir helgi vikið úr Flokki fólksins en þeir hafa í hyggju að sitja áfram sem óháðir þingmenn. Gunnar Bragi og Bergþór eru komnir í tímabundið leyfi en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ítrekað sagst ekki sjá ástæðu til að segja af sér þrátt fyrir að hafa setið lengi að drykkju með félögum sínum og tekið virkan þátt í hinum umdeildu og hljóðrituðu samræðum.