Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, sækist eftir 2. sæti á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Flokkurinn fékk tvo menn kjörna í kjördæminu í síðustu kosningum, formann flokksins Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Önnu Kolbrúnu Árnadóttir.
Heimildir blaðsins herma að hún hyggist gefa áfram kost á sér og stefnir því í baráttu um 2. sætið milli hennar og Þorgríms.
Stillt verður á lista flokksins í öllum kjördæmum en enginn þingmaður flokksins hefur gefið til kynna að hann hyggist hætta.
Una María Óskarsdóttir sækist eftir oddvitasæti í Kraganum og skorar með því Gunnar Braga Sveinsson á hólm.
Fréttablaðið hefur áður fjallað um leit Miðflokksins að konum til framboðs og hefur Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, systir formannsins, verið nefnd. Heimildir blaðsins herma þó að hún hafi gefið afsvar. Didda Hólmgrímsdóttir hefur verið nefnd til framboðs í Suðurkjördæmi. Þar stefnir í slag milli þingmannanna Birgis Þórarinssonar og Karls Gauta Hjaltasonar.