Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Miðflokksins var í ítarlegu viðtalið við Morgunblaðið í dagþar sem hún fór yfir stöðu sína og líðan í kjölfar Klaustursmálsins.

Anna segir í viðtalinu að hún hafi verið meðal þeirra fyrstu sem yfirgaf Klaustur þann 20. nóvember og að hún hafi sagt við Ólaf Ísleifsson sem fór á sama tíma og hún að umræðurnar hafi verið of mikið. Henni hafi fundist vera of mikill ákafi í mönnum og þegar hún hafi reynt að skipta um umræðuefni hafi það ekki gengið. Hún segist ekki geta tekið ábyrgð á orðum annarra.

Erfitt að hafa verið konan sem þagði

Anna Kolbrún segir að sem kona hafi aðstæðurnar verið erfiðar og að hún hafi í þessum aðstæðum verið konan sem hún hafi iðulega hvatt aðrar konur til að vera ekki, það er konan sem þegir.

„Ég hef oft verið í þessum aðstæðum. Þar sem karlar eiga umræðuna, stjórna henni og ætla ekki að hleypa konum að. Það sem mér þykir kannski einna erfiðast að horfast í augu við er að ég hef svo margoft stappað stálinu í aðrar konur, sagt þeim að standa á sínu og láta ekki valta yfir sig. Ég á erfitt með að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ég hafi ekki gert það þetta kvöld. Að hafa verið þessi kona sem ég er alltaf að segja öðrum konum að vera ekki. Konan sem þegir,“ segir Anna Kolbrún í viðtalinu við Morgunblaðið.

Hún segir að málið hafa reynt mikið á hana og aðstandendur hennar og hún hafi orðið fyrir miklu áreit. Hún fari ekkert án fylgdar.

„Hætt að afsaka mig fyrir að gráta“

Anna Kolbrún segir að hún hafi grátið mikið undanfarna daga, bæði í einrúmi en einnig á fundum með forseta þings og öðrum þingmönnum. Hún segist hætt að vera hrædd við að gráta og það eðlilegt að sýna tilfinningar við slíkar aðstæður.

Anna Kolbrún fer síðan yfir upplifun sína á þinginu og störfum hennar þar og er spurð út í það slæmt tal og fúkyrði séu hluti af daglegum störfum þingsins.

Anna segir að hún upplifi ekki þingið á þann átt, en að hún sé nýr þingmaður og hafi því eflaust takmarkaða reynslu.

„En ég er tiltölulega ný á þingi og hef ekki upplifað það sem betur fer. En ég hef þó heyrt hvernig fólk talar við slíkar aðstæður. Þingmenn tjá sig oft frjálslega á opinberum vettvangi, m.a. á facebook og oft eru það orð og ummæli um persónur sem sýna mætti meiri nærgætni. Kannski er þetta svona í tilteknum hópum. Að mínu mati einkennast dagleg störf Alþingis af heilindum og ég hef fundið það undanfarna daga að fólk er sérlega elskulegt hvað við annað,“ segir Anna Kolbrún við viðtalinu við Morgunblaðið.

„Hvaða fordómum býr sá yfir sem skrifaði fyrstu fréttina um það?“

Þá var Anna spurð út í selahljóðið sem einhver virðist gera á upptökunum þegar talað er um Freyju Haraldsdóttur, baráttukonu fyrir réttindum fatlaðs fólks og fyrrverandi varaþingmanns. Sigmundur Davíð sagði í kvöldfréttum á Stöð 2 að um væri að ræða einhvers konar umhverfishljóð, eins og í reiðhjóli að bremsa, og þvertók fyrir það að þingmennirnir hefðu gert grín að Freyju með þessum hætti.

Anna Kolbrún tók undir þessar útskýringar Sigmundar í viðtalinu við Morgunblaðið og spurði hvaða fordómum sá byggi yfir sem skrifaði fréttina.

„Hverjum datt í hug að velta fyrir sér hugtakinu selur og tengja það við Freyju Haraldsdóttur? Hvaða fordómum býr sá yfir sem skrifaði fyrstu fréttina um það?“

Anna Kolbrún er síðan spurð, miðað við niðurstöður kannana sem sýna að mikill meirihluti vilji að þingmeninrnir sex segi af sér, hvort hún vilji vera þingmaður áfram. Hún segist vera mannleg og að hún þurfi að læra og lifa með mistökum sínum. En að á sama tíma sé hún ekki tilbúin að taka á sig skellinn fyrir ummæli annarra. 

Að lokum er hún síðar spurð hvort hún ætli að segja af sér, sem hún segist ekki ætla að gera.