Angjelin Mark Sterkaj, sem játað hefur að hafa orðið Armando Beqirai að bana í Rauðagerði í febrúar, segist hafa verið einn að verki.
„Mér þykir mjög miður að fjöldi fólks, sem á engan þátt í því sem ég gerði, hafi verið bendlað við málið og jafnvel þurft að sæta gæsluvarðhaldi, þeirra á meðal Íslendingur sem hefur bæði verið opinberlega nafngreindur og myndir verið birtar af honum með fjölmiðlaumfjöllun um málið.“ Þetta segir Angjelin í samtali við Fréttablaðið.
Angjelin hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins í tæpar tíu vikur. Alls hafa fjórtán verið handteknir vegna málsins. Af þeim sættu, þegar mest var, níu manns í gæsluvarðhaldi.
Í dag er Angjelin sá eini sem enn sætir gæsluvarðhaldi vegna málsins en gildandi gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum rennur út 15. maí næstkomandi. Sjö sæta enn farbanni vegna málsins.
Segist hafa fengið alvarlegar hótanir
Angjelin er nú í lausagæslu í fangelsinu á Hólmsheiði, sem þýðir að hann sætir ekki lengur einangrun og getur átt samneyti við aðra fanga á gæsluvarðhaldsgangi.
Angjelin segir að eftir að hann losnaði úr einangrun og hafi farið að geta að fylgjast með fjölmiðlum hafi hann orðið var við allskonar sögusagnir og getgátur um málið sem eigi ekki við rök að styðjast.
„Málið er tilkomið af persónulegum ástæðum, sem varðar annars vegar mig sjálfan persónulega og hins vegar gengið sem hinn látni tilheyrði. Alvarlegar hótanir komu fram og atburðarás var farin af stað sem ég get ekki farið nánar út í að svo stöddu,“ segir Angjelin
„Málið er tilkomið af persónulegum ástæðum, sem varða annars vegar mig sjálfan persónulega og hins vegar gengið sem hinn látni tilheyrði. Alvarlegar hótanir komu fram og atburðarás var farinn af stað sem ég get ekki farið nánar út í að svo stöddu.“
Angjelin vill ekki ræða málið frekar en telur að það muni skýrast við þegar rannsókn málsins og sönnunarfærslu fyrir dómi er lokið.
Óttuðust hefndaraðgerðir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til blaðamannafundar um rannsókn málsins 26. mars síðastliðinn. Auk almennra upplýsinga um framgang rannsóknarinnar greindi lögregla frá mögulegri hættu á hefndaraðgerðum vegna málsins.
„Rannsókn beinist einnig að því hvort hópur manna ætli að ráðast gegn þeim sem liggja undir grun í málinu og fjölskyldum þeirra,“ sagði Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn á fundinum. Vegna upplýsinga um þetta og vitneskju lögreglu hafi verið farið aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu þann 18. mars með aðstoð sérsveitarinnar. Tveir hafi verið handteknir í þeim aðgerðum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var um að ræða viðskiptafélaga hins látna.
Á umræddum blaðamannafundi fór Margeir einnig almennt yfir rannsókn málsins. Lögreglu hafi borist tilkynning um slasaðan mann fyrir utan hús númer 28 í Rauðagerði, rétt fyrir miðnætti 13. febrúar síðastliðins. Maðurinn hafi verið úrskurðaður látinn eftir flutning á slysadeild. Nokkur skotför hafi mátt sjá á líki mannsins, sem lögreglu hafi þótt benda til manndráps af ásetningi. Krufning hafi síðar leitt í ljós að Armando hafi verið skotinn níu skotum í búk og höfuð með 22 kalibera skotvopni.
Grunur vaknaði um uppgjör milli brotahópa
Við upphaf rannsóknar lögreglu hefði vaknað grunur um að málið tengdist einhverskonar uppgjöri milli brotahópa hér á landi, bæði erlendum og íslenskum.
Tólf hafi verið handteknir vegna málsins á fyrstu stigum rannsóknarinnar og tveir til viðbótar síðar eins og áður sagði.
Þá greindi Margeir frá því að játning væri komin fram frá manni af sama þjóðerni og hinn látni, en þeir eru báðir af albönskum uppruna.
Á fundinum kom fram að rannsóknargögn lögreglu styðji við játninguna en rannsókn sé þó enn í fullum gangi. Hún varði meðal annars mögulegan þátt annarra sakborninga að skipulagi og þátttöku fyrir og eftir manndrápið.
Fjórtán sakborningar af ellefu þjóðernum
Fjórtán manns hafa réttarstöðu sakbornings í málinu. Sakborningarnir eru af ellefu þjóðernum og sagði Margeir óvenjulegt af hve mörgum þjóðernum þeir eru sem taldir eru tengjast málinu. Um er að ræða fólk frá Íslandi, Rúmeníu, Spáni, Ítalíu, Portúgal, Albaníu, Eistlandi Serbíu, Lettlandi, Hvíta-Rússlandi og Litháen. Samvinna brotahópa af svo mörgum þjóðernum sé óvenjuleg, í samanburði við hin Norðurlöndin.
Þegar blaðamannafundurinn var haldinn, rúmum mánuði eftir morðið, höfðu sautján leitir verið framkvæmdar vegna rannsóknar málsins, leitað hafi verið í húsum, í bílum og á víðavangi. Umræddar leitir hafi ekki aðeins tengst meintu morðvopni heldur miðað að því að afla sönnunargagna í málinu.
Meint morðvopn fannst í sjó
Lagt hafi verið hald á ýmsa muni, þar á meðal símtæki, tölvur, skotvopn og skotfæri. Auk þess liggi fyrir framburður fjölda vitna og upplýsingar sem aflað hafi verið úr öryggismyndavélum, símtækjum og tölvum.
Skotvopnið sjálft fannst ekki fyrr en rúmum mánuði eftir að morðið var framið, í sjó í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Að sögn Margeirs styður rannsókn á skotvopninu grun lögreglu um að skotið hafi verið úr því í Rauðagerði umrædda nótt.
Ákæra enn ekki verið birt
Ákæra hefur enn ekki verið birt í málinu, en samkvæmt lögum um meðferð sakamála má ekki halda manni í gæsluvarðhaldi lengur en tólf vikur án þess að honum hafi verið birt ákæra. Þetta þýðir að hafi Angjelin ekki verið birt ákæra fyrir miðjan maí mánuð, þarf að sleppa honum úr haldi.
Hér má horfa á blaðamannafund lögreglu um málið, frá 26. mars síðastliðnum: