Angjelin Sterkaj, sem var í morgun dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að myrða Armando Beqirai fyrir utan heimili hans í Rauðagerði, segist ánægður að hin þrjú, Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, Murat Selivrda og Sheptim Qerimi, hafi ekki verið „ranglega dæmd“ fyrir samverknað að morði sem hann einn framdi.

Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelins, heyrði í skjólstæðingi sínum eftir að dómur var kveðinn upp og segir að Angjelin hafi fundið fyrir létti að hafa verið einn dæmdur í málinu.

Oddgeir segir niðurstöðuna ekki koma á óvart í ljósi þess að Angjelin hafi játað á sig morðið. Hann hafi sömuleiðis þótt ákæra um samverknað á hendur þremenningana ekki hafa verið sannfærandi.

Verjendurnir í Rauðagerðismálinu í dómsal 101 í morgun áður en dómur var kveðinn upp.
Fréttablaðið/Anton Brink

Aðspurður um framhaldið segir Oddgeir: „Ég mun hitta Angjelin og fara yfir dóminn með honum. Þá verður ákvörðun tekin um framhaldið.“

Þótt Angjelin hafi játað á sig morðið og fái 16 ára fangelsisdóm eins og er eðlilegt í manndrápsmálum er svona þungum fangelsisdómum vanalega áfrýjað til að fá endurskoðun á öðru dómstigi.

S‎ýkna hinna þriggja þýðir að ekki var samverknaður í málinu að mati dómara. Hefðu hin þrjú verið sakfelld hefði Angjelin sennilega fengið þyngri dóm en 16 ár.

Angjelin var einn dæmdur í málinu en hann hefur frá upphafi haldið því fram að hann hafi verið einn að verki.
Fréttablaðið/Anton Brink