Heimamenn og fjöldi gesta komu saman í nýrri Miðgarðakirkju í Grímsey þegar þess var minnst að ár var frá því að kirkjan brann til grunna og því fagnað að ný kirkja er nú risin. Kvenfélagið Baugur, sem í sitja allar konur í eynni, bauð síðan til veislukaffis í félagsheimilinu Múla. Friðrik Ómar Hjörleifsson var fyrstur til að taka lagið í hinni nýju kirkju.

Endurreisnin hefur gengi vel þrátt fyrir tafir vegna slæmrar veðráttu í sumar. Á móti kemur að vel hefur viðrað í september.

Á næstu vikum á að ljúka við að klæða kirkjuna að utan og leggja steinskífur úr stuðlabergi á þakið.

Sóknarnefnd Miðgarðakirkju mun á næstunni taka ákvörðun um hvenær haldið verður áfram með framkvæmdir en framvinda þeirra er háð þeim fjármunum sem safnast til verksins. Vonir standa til að í vetur takist að innrétta kirkjuna og vígja næsta sumar. Söfnun fyrir nýrri Miðgarðakirkju heldur áfram.