„Að mati HR ætti hafnsækin starfsemi og þá sérstaklega starfsemi fyrir börn og unglinga ekki að vera staðsett í nágrenni skólpdælustöðvar,“ segir í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um þá hugmynd frá skipulagsfulltrúa borgarinnar að aðstaða fyrir siglingaklúbb barna og unglinga verði við skólpdælustöð í Skeljanesi

Breytingar standa fyrir dyrum í Fossvogi og Skerjafirði, meðal annars smíði brúar yfir í Kársnes og nýtt íbúðahverfi vestan við brautarenda Reykjavíkurflugvallar og austan við byggðina í Skerjafirði. Til skoðunar er að flytja siglingaklúbb barna og unglinga úr Nauthólsvík að skólpdælustöðinni við Skeljanes.

„Þegar ráðist var í hreinsun strandlengjunnar í Reykjavík og tekin ákvörðun um að koma upp baðstað í Nauthólsvík, var dælustöð fyrir skólp fundinn staður við Skeljanes, til að tryggja að hætta á skólpmengun á baðstaðnum og aðstöðu fyrir siglingaklúbb fyrir börn og unglinga væri í lágmarki,“ rifjar heilbrigðiseftirlitið upp.

Dælustöðin sé ekki með yfirfallsútrás til að minnka líkur á skólpmengun, heldur aðeins neyðarlúgu sem opnast beint í fjöruborðið. „Á álagstímum svo sem vegna mikillar úrkomu við viðhald og ef bilun verður, rennur því óhreinsað skólp beint í sjóinn við hlið stöðvarinnar. Það magn sem losnar er 1.750 lítrar á sekúndu.“

Samkvæmt reglum skuli fjöldi hitaþolinna kólíbaktería eða saurkokka í að minnsta kosti 90 prósentum tilfella vera undir 100 per 100 millilítra við útivistarsvæði og fjörur.

„Ef óhreinsað skólp er losað í fjöruborð geta gerlatölur hlaupið á hundruðum þúsunda, jafnvel meira, og tugþúsundum þegar þynning eykst,“ segir í umsögninni. Siglingaklúbburinn ætti ekki að vera við skólpdælustöðina.

„Aðstaðan yrði staðsett innan varnargarðs við hlið núverandi dælustöðvar,“ bendir heilbrigðiseftirlitið á. Ný dælustöð sé teiknuð úti á varnargarðinum og athafnasvæði siglingaklúbbsins yrði því á áhrifasvæði dælustöðva. Ef neyðarlúga opnist verði gerlamengun í umhverfinu langt yfir leyfilegum mörkum.

„Ef álag verður of mikið eða bilun verður, getur neyðarlúga opnast án fyrirvara og gerlamengun borist á það svæði sem börn og ungmenni eru að stunda siglingar á. Í skólpi eru auk saurkóligerla og entero­kokka fjöldi sjúkdómsvaldandi örvera, meðal annars ýmsar veirur, svo sem COVID-19. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leggst því gegn því að siglingaklúbbur fyrir börn verði staðsettur á þessum stað,“ segir heilbrigðiseftirlitið.

Í tillögu skipulagsfulltrúa er einnig gert ráð fyrir smábátahöfn neðan við nýja byggð í Skerjafirði, nokkru innan við skólpdælustöðina. Segist heilbrigðiseftirlitið ítreka að slík starfsemi ætti ekki að vera í nágrenni skólpdælustöðvar.

„Umferð smábáta yrði um svæði sem hætta væri á gerlamengun ef neyðarlúga opnast. HER telur ekki æskilegt að beina útivist í formi siglingar inn á áhrifasvæði skólpdælustöðvarinnar og telur að slíkri aðstöðu ætti að finna stað í meiri fjarlægð.“