Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins segir það galið að hann sé útmálaður í hlutverki geranda vegna ummæla hans á Klausturbar um Albertínu Elíasdóttir, þingmann Samfylkingarinnar. Segir hann að staðan sé þveröfug, að Albertína hafi gengið nærri honum kynferðislega. Hann hafi verið að lýsa erfiðri reynslu sem hann hafi orðið fyrir í einkasamtali á meðal vina. Viljinn greinir frá.

Að sögn Viljans kemur þetta fram í „harðorðu andmælabréfi“ sem Bergþór sendi á varaforsætisnefnd Alþingis. Siðanefnd Alþingis kláraði álit sitt um hvort þingmenn hafi gerst sekir um siðabrot í Klaustursmálinu svokallaða. Var álitið sent á forsætisnefnd í síðustu viku. Þingmennirnir fengu þá frest til að skila andsvörum sínum fyrir lok síðustu viku.

Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason minntust báðir á Albertínu í samtalinu á Klausturbar og sögðu hana hafa áreitt sig hvorn í sínu tilvikinu. Albertína hefur tjáð sig um samtalið að sagt að það hafi verið hrikalegt að vera sökuð um „eitthvað sem gerðist ekki“. Hér fyrir neðan er eftirrit af samtalinu sem um ræðir.

Bergþór: „Við eigum sem sagt MeToo sögu.“

„Léstu þig hafa það“ spyr einhver í framhaldinu.

Bergþór: „Nei ég gerði það sem betur fer ekki.“

„Það voru ýmsir sem sögðu ‘take one for the team’ en Beggi var ekki til,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hlær.

Bergþór: „Ég var orðinn þreyttur á herrakvöldi Vestra.“

„Hversu hart gekk hún fram?“ er spurt í kjölfarið.

Bergþór: „Hún var að tosa buxurnar af hælunum á mér. Ég vakna úr nærbuxunum.“

Gunnar Bragi: „Það var svipað. Ég var nýlega orðinn ráðherra og þetta var í kringum kosningar, 2009-10 ]…] Það er einhver hátíð í samkomuhúsinu í Hnífsdal. Ég mæti þarna sem frambjóðandi ásamt fleirum. Ég er allt í einu farinn að dansa við þessa stúlku […] Ég sagði bara nei […] en það var bara suðað. Þá var bara eins og einhver hefði verið líflátinn. Hún var brjáluð, hún trylltist, hún grenjaði og öskraði. Ég bara hugsaði, hvað, á ég að ríða henni? Það var algjörlega kreisí.“

Bergþór: „Þetta er sú þingkona sem hélt lengstu MeToo ræðuna. Og við sátum bara „what the fuck is going on““.

„Þessir menn munu aldrei ná bata nema þeir opni sig, og það í opnuviðtali,“ segir Sigmundur Davíð.

„Það getur vel verið að við ákveðnar aðstæður, ég ætla ekki að segja hvað aðstæður, að ég þurfi að labba að henni og segja: Ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér?“ segir Gunnar Bragi og heyrist þá hlátur á upptökunni.

Viljinn greinir frá því að Bergþór hafi gert athugasemdir við ætlun forsætisnefndar að vinna álit úr „ólöglega fengnum upptökum“. Þá segist hann undrast á ætlun Stein­unnar Þóru Árna­dótt­ur og Har­aldar Bene­dikts­­sonar að „leggja blessun sína yfir það að karlmenn skuli grjóthalda kjafti ef á þá er sótt með harkalegum kynferðislegum hætti“.

Berþór segir að það hryggi sig ósegjanlega, að forsætisnefnd ætli sér að „nýta þann glæp til að refsa þolendum brotsins og um leið þolendum kynferðisbrota almennt.“