Kristjana María S. Ásbjörnsdóttir rekur Hótel Djúpavík ásamt fjölskyldu sinni og býr þar hluta árs. Hún birti í gær færslu á Facebook síðu sinni þar sem hún sýnir neikvæð ummæli um hótelið á Trip Advisor og er afar neikvæðum orðum einnig farið um móður Kristjönu og stofnanda Hótel Djúpavíkur, Evu Sigurbjörnsdóttir sem er einnig oddviti hreppsnefndar Árneshrepps. Segir Kristjana ekki geta orða bundist lengur en mikið af neikvæðum ummælum hafa komið inn á síður fyrirtækisins í aðdraganda framkvæmda við Hvalárvirkjun.
Stendur í ummælunum sem rituð eru af Ragnheiði Pálsdóttur: „Mjög vondur matur. Eigandinn er sjálfselskur hræsnari sem vill eyðileggja landsvæði í grenndinni til þess að byggja nokkrar virkjanir í Hvalá. Ekki stunda viðskipti við þetta hótel ef þú elskar náttúruna.“
Ragnheiður hafði lýst því yfir í Facebook hópnum Verndun Drangajökulssvæðisins að hægt væri að ná sér niðri á Evu, oddvita hreppsnefndar sem samþykkt hefði Hvalárvirkjun með persónulegum hætti.
Segir Ragnheiður í færslu sinni:
„Það er hægt að láta Evu í hreppsnefndinni finna fyrir því með því að gefa Hótel Djúpuvík eina stjörnu á fb og google.“
Eva Sigurbjörnsdóttir stofnaði Hótel Djúpavog ásamt eiginmanni sínum Ásbirni Þorgilssyni árið 1985 og hafa þau búið þar og starfað síðan. Harmar Eva í samtali við Morgunblaðið í gær að deilurnar um virkjunina einkennist nú af skítkasti. Eva telur virkjunina nauðsynlega til að styrkja fyrir orkubúskap á Vestfjörðum, auka framleiðsluna og koma á hringtengingu rafmagnsflutninga.
Fyrirhugað er að virkja Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará og skapa þrjú miðlunarlón á Ófeigsfjarðarheiði til að byggja 55 MW orkuver og eru framkvæmdir þegar hafnar við fyrsta áfanga verksins.
Hreppsnefnd Árneshrepps á Ströndum samþykkti nánast einróma tillögu Vesturverks að deilliskipulagi vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Deiliskipulagið var fyrst samþykkt í lok september 2018 og öðru sinni í mars á þessu ári.
