„Við viljum ekki gera fjörðinn okkar að verksmiðju,“ segir Þóra Bergný Guðmundsdóttir, íbúi á Seyðisfirði. Hún hefur ásamt fleiri íbúum hrundið af stað undirskriftasöfnun til að mótmæla laxeldi í Seyðisfirði.

Skipulagsstofnun auglýsti í byrjun vikunnar frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða um eldi í firðinum, en gert er ráð fyrir að ala þar tíu þúsund tonn af laxi. 6.500 tonn af frjóum laxi og 3.500 tonn af ófrjóum. Opið er fyrir umsagnir og athugasemdir um skýrsluna til 28. desember næstkomandi.

Þóra segir meirihluta Seyðfirðinga andsnúna eldi í firðinum og að vel hafi gengið að safna undirskriftum í fyrradag þegar gengið var í hús í bænum. „Það eru alltaf einhverjir sem vilja skoða málin betur eða eru ekki sammála en meirihlutinn tók vel í þetta og var ánægður með að við hefðum farið af stað með undirskriftasöfnunina,“ segir hún.

Þá segir Þóra að ekkert samráð hafi verið haft við bæjarbúa um eldi í firðinum og að unnið sé eftir óljósu regluverki. „Við sjáum þetta bara í fréttum en auðvitað er þetta búið að malla einhvers staðar í bæjarstjórn. Ekkert samráð hefur verið haft við bæjarbúa og við erum ekkert spurð,“ segir hún.

Þóra Bergný Guðmundsdóttir

Bæjarbúar eru þá sagðir furða sig á því að Fiskeldi Austfjarða telji lög um skipulag haf- og strandsvæða sem sett voru sumarið 2018 ekki eiga við um eldið í Seyðisfirði þar sem lögin séu ekki afturvirk og áform um eldið hafi verið hafin áður en lögin tóku gildi. Upphafleg drög matsáætlunar voru send til Skipulagsstofnunar í júní 2014 og endanleg áætlun í febrúar 2017. „Þetta er bara eins og hver önnur þvæla, við vissum ekkert hvað þetta fyrirtæki var að bollaleggja hér á okkar eigin bæjarhlaði,“ segir Þóra.

Undirskriftalistunum verður safnað saman um helgina og þeir svo sendir sem víðast að sögn Þóru. „Við munum senda þetta á sveitarstjórnina, Alþingi og á Fiskeldi Austfjarða. Við lýsum einbeittri andúð á þessu, bæði hvernig þetta var gert og hvað er í húfi.“

Í frummatsskýrslunni kemur fram að áhrif eldisins á botndýralíf verði neikvæð á meðan á rekstri standi en séu afturkræf. Þá verði áhrif kvíanna á fjörðinn óveruleg en einnig afturkræf. „Þetta er langur, lygn fjörður og þó að eitthvert fyrirtæki segi að hann hreinsi sig og að áhrifin séu ekki langvinn þá er það ekkert tryggt,“ segir Þóra.

„Við höfum verið að byggja upp ferðaþjónustu hér í um 40 ár og erum orðin eftirsóttur ferðamannastaður. Við þurfum að halda áfram inn í nútímann en ekki fara aftur á bak í fiskeldi,“ bætir Þóra við.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, segir mál íbúa Seyðisfjarðar ekki enn hafa komið til umfjöllunar í sveitarstjórn en að hann hafi heyrt af óánægju þeirra. „Ég hef heyrt af þessari undirskriftasöfnun og á von á að þetta mál eigi eftir að fá sína umfjöllun í fagnefndum og þar munu menn auðvitað horfa til sjónarmiða íbúa.“

Aðspurður hvort samstaða ríki um málið í bænum segist hann ekki geta staðfest það. „Eflaust eru þarna skiptar skoðanir eins og er um öll mál en það er mjög eðlilegt að það séu skoðaðir allir fletir á svona málum,“ segir Björn.