Í svari dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, við fyrirspurn þingmanns Pírata, Andrésar Inga Jónssonar, um þvingaðar brottvísanir frá landinu kemur ekki fram hvort fólki hafi verið gefin lyf til þess að auðvelda meðhöndlun þeirra sem fluttir eru úr landi.

Að sögn Andrésar Inga kemur það á óvart að ekkert sé minnst á þetta atriði í svari ráðherra þar sem sérstaklega hafi verið beðið um upplýsingar varðandi það.

„Sérstaklega er óskað upplýsinga um það hvort fólki hafi verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísunina,“ orðaði Andrés fyrirspurn sína en svarið birtist í gær.

Aðspurður segist Andrés ekki vita hvert hann eigi að snúa sér til þess að fá svör varðandi málið en íhugar þó að endursenda fyrirspurn sína með meiri áherslu á þetta tiltekna atriði.

Í svari dómsmálaráðherra segir að heimilt sé að beita svokölluðu flutningsbelti þegar fólk er fjarlægt úr landi með valdi en lyfjagjöfinni var sleppt.