„Hegðun þín er óafsakanleg og hefur valdið konungsfjölskyldunni skaða. Nú heldur þú þig frá sviðsljósinu. Þú ert ekki að fara að snúa aftur í bráð.“ Eitthvað á þessa leið sagði Karl Bretaprins við litla bróður sinn Andrés á fundi þeirra með Filippusi föður þeirra á Sandringham-setrinu fyrir nokkrum dögum.

Mikið hefur gengið á hjá bresku konungsfjölskyldunni undanfarna áratugi. Framhjáhöld, skilnaðir og stíf fjölmiðlaumfjöllun blikna í samanburði við tilhugsunina um að sá sem er áttundi í röðinni að krúnunni sé talinn hafa tekið þátt í kynferðisbrotum og mansali. Sama hvernig Andrés reynir að bera af sér sakir er ekki hægt að neita því að hann var vinur barnaníðingsins Jeffreys Epstein og voru svör hans í viðtali við Newsnight á BBC svo neyðarleg að það þurfti hreinlega að reka hann í útlegð frá hirðinni.

Filippus, sem sagði sig frá opinberu lífi fyrir tveimur árum, á samkvæmt breska dagblaðinu The Telegraph að hafa sagt syni sínum að það væri einfaldlega ekkert annað í stöðunni. „Þú tekur út þína refsingu,“ á hann að hafa sagt. Vildi heimildarmaðurinn meina að Filippus hefði raunverulegar áhyggjur af framtíð konungsfjölskyldunnar og stöðu hennar vegna vinskapar Andrésar við Epstein.

Glæpir Epsteins voru viðurstyggilegir. Mansal á stúlkum allt niður í tólf ára gömlum sem var nauðgað af Epstein, bæði á heimili hans í New York og á eyju í Karíbahafi. Hefur fjöldi fórnarlamba stigið fram með ásakanir gegn vinum Epsteins um að þeir hafi tekið fullan þátt í kynferðisbrotum.

Epstein fannst látinn í fangaklefa í New York í ágúst. Strax í kjölfarið fóru spjótin að beinast að Andrési Bretaprins. Virginia Giuffre, áður Virginia Roberts, hafði sagt við yfirvöld í Flórída árið 2015 að Andrés hefði brotið á sér þegar hún var sautján ára, sem er undir lögaldri. Í eitt skiptið í húsi Ghisl­aine Maxwell, kærustu Epsteins, í Lundúnum, annað skiptið á heimili Epsteins í New York og í þriðja skiptið á eyju hans í Karíbahafi.

Maxwell er nú til rannsóknar vegna aðkomu sinnar að glæpum Epsteins. Samkvæmt bandarískum dómsskjölum er Maxwell sögð hafa tekið virkan þátt í mansali og jafnvel kennt ungum stúlkum hvernig þær ættu að bera sig að í kringum Epstein og vini hans.

Andrés neitar alfarið öllum ásökunum. Hann hefur ekki rætt við bandarísku alríkislögregluna eða saksóknara vestanhafs. Í viðtalinu við BBC sagðist hann vera tilbúinn til þess að ræða við rannsakendur, það verður þó ekki að fyrra bragði.

David Boies, lögmaður fimm kvenna, undirbýr nú stefnu til að fá Andrés til Bandaríkjanna til að bera vitni. Bandarískir lögspekingar sem ræddu við The Guardian segja að ef Andrési verði gert að ræða við saksóknara án friðhelgi þá yrði honum alltaf ráðlagt að bera fyrir sig fimmtu grein stjórnarskrárinnar um að svara engu á grundvelli þess að hann gæti borið sök á sjálfan sig.

Fundur þeirra feðga í Sandringham fór fram stuttu áður en viðtal BBC við Giuffre fór í loftið og vissu þeir Filippus og Karl að það myndi gera útslagið. Ólíkt Andrési var Giuffre sannfærandi. „Þetta er ekki ein­hver sóða­leg kyn­líf­s­saga. Þetta er saga um man­sal. Þetta er saga um mis­notkun og saga um mann af konungs­ættum,“ sagði Giuffre. „Ég sár­bæni fólkið í Bret­landi að standa með mér, hjálpa mér í þessari bar­áttu, og sam­þykkja ekki slíka hegðun.“

Grafík/Fréttablaðið