Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður utan flokka, hefur lagt til að há­marks­hraði í þétt­býli verði lækkaður niður í 30 kíló­metra á klukku­stund.

Andrés segir að mark­miðið sé að leið­rétta þá villu að grunn­hraði í þétt­býli eigi að vera 50 kíló­metrar á klukku­stund þegar 30 kíló­metra há­marks­hraði sé miklu öruggari fyrir alla veg­far­endur. „Byggðin er jú fyrir fólkið,“ segir hann á Twitter.

Gangandi vegfarendur í forgangi

Greint var frá málinu í kvöld­fréttum Stöðvar 2 en Andrés Ingi sendi frum­varpið á þing­menn í dag til að leita að með­mælendum. Hann hyggst leggja frum­varpið fram á næstu dögum. Frum­varpið gerir ráð fyrir að sveitar­fé­lög geti á­kvarðað sjálf að hafa hærri há­marks­hraða ef að­stæður leyfa. Þar með verður hærri hraði ekki bannaður heldur þurfa sveitar­fé­lög að færa rök fyrir því að hafa hærri hraða.

„Gangandi veg­far­endur eiga að vera í for­gangi og allar á­kvarðanir um meiri hraða að vera teknar af sveitar­fé­lögum með hlið­sjón af öryggi, loft­gæðum og lofts­lagi,“ segir Andrés Ingi á Twitter í kvöld og bætir við að þetta sé í takt við yfir­lýsingu um um­ferðar­öryggi sem Ís­land skrifaði undir í vor.

„Á blússandi ferð allt í kringum okkur“

Hann segir að á síðustu vikum hafi yfir­völd víða á­kveðið að lækka há­marks­hraða í þétt­býli niður í 30 kíló­metra á klukku­stund. Birtir hann skjá­skot af fréttum hollenskra og spænskra fjöl­miðla máli sínu til stuðnings. „Þessi þróun er á blússandi ferð allt í kringum okkur.“

Hann segir að frum­varpið um lægri há­marks­hraða birtist eftir nokkra daga, en auk þess er lagt til að heimild til að hafa hærri há­marks­hraða utan þétt­býlis en 90 kíló­metrar á klukku­stund verði af­numin. Þá er lagt til að há­marks­öku­hraði á bíla­stæðum verði 10 kíló­metrar á klukku­stund í stað 15.

Andrés segir að frum­varpið hafi sprottið upp úr nokkrum þráðum um um­ferðar­öryggi á Twitter. Þakkar hann til að mynda Sigur­borgu Ósk Haralds­dóttur, for­manni skipu­lags- og sam­göngu­ráðs Reykja­víkur­borgar, fyrir inn­blástur og at­huga­semdir vegna frum­varpsins.