Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, hefur lagt til að hámarkshraði í þéttbýli verði lækkaður niður í 30 kílómetra á klukkustund.
Andrés segir að markmiðið sé að leiðrétta þá villu að grunnhraði í þéttbýli eigi að vera 50 kílómetrar á klukkustund þegar 30 kílómetra hámarkshraði sé miklu öruggari fyrir alla vegfarendur. „Byggðin er jú fyrir fólkið,“ segir hann á Twitter.
Gangandi vegfarendur í forgangi
Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 en Andrés Ingi sendi frumvarpið á þingmenn í dag til að leita að meðmælendum. Hann hyggst leggja frumvarpið fram á næstu dögum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélög geti ákvarðað sjálf að hafa hærri hámarkshraða ef aðstæður leyfa. Þar með verður hærri hraði ekki bannaður heldur þurfa sveitarfélög að færa rök fyrir því að hafa hærri hraða.
„Gangandi vegfarendur eiga að vera í forgangi og allar ákvarðanir um meiri hraða að vera teknar af sveitarfélögum með hliðsjón af öryggi, loftgæðum og loftslagi,“ segir Andrés Ingi á Twitter í kvöld og bætir við að þetta sé í takt við yfirlýsingu um umferðaröryggi sem Ísland skrifaði undir í vor.
„Á blússandi ferð allt í kringum okkur“
Hann segir að á síðustu vikum hafi yfirvöld víða ákveðið að lækka hámarkshraða í þéttbýli niður í 30 kílómetra á klukkustund. Birtir hann skjáskot af fréttum hollenskra og spænskra fjölmiðla máli sínu til stuðnings. „Þessi þróun er á blússandi ferð allt í kringum okkur.“
Hann segir að frumvarpið um lægri hámarkshraða birtist eftir nokkra daga, en auk þess er lagt til að heimild til að hafa hærri hámarkshraða utan þéttbýlis en 90 kílómetrar á klukkustund verði afnumin. Þá er lagt til að hámarksökuhraði á bílastæðum verði 10 kílómetrar á klukkustund í stað 15.
Andrés segir að frumvarpið hafi sprottið upp úr nokkrum þráðum um umferðaröryggi á Twitter. Þakkar hann til að mynda Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, formanni skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, fyrir innblástur og athugasemdir vegna frumvarpsins.
Það eru ennþá nokkrir dagar í að frumvarpið birtist, en svona lítur það út í drögum. pic.twitter.com/HYRRJHjJXV
— Andrés Ingi (@andresingi) November 23, 2020