„Fyrsta þingmálið sem ég legg fram þennan þingveturinn er komið í loftið. Það snýst um það sem ég hef kallað snöggskilnaði,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, á Facebook síðu sinni. Hann hefur lagt fram frumvarp þess efnis að hjón fái að skilja án undanfarandi sex mánaða skilnaðar að borði og sæng.

Treystir fólki til að skilja

„Ef við treystum fullorðnu fólki til að ákveða hvort það vilji giftast hvort öðru án þess að það þurfi 6 mánaða reynslutíma, þá hljótum við að treysta því til að ákveða hvort það vilji hætta að vera gift,“ segir Andrés um frumvarpið.

„Í núverandi kerfi þarf fólk gjarnan að sitja af sér hálft ár skilið að borði og sæng áður en það getur fengið endanlegan lögskilnað.“ Þröng skilyrði eru fyrir því að veita leyfi til skilnaðar án téðra sex mánaðar undanfara. Þá kveður Andrés einu undantekningu þess vera ef annað hjóna játar á sig hjúskaparbrot, líkamsárás eða kynferðisbrot.

Sleppa við sex mánaða afplánun

„Verði þetta frumvarp mitt að lögum getur fólk strax fengið lögskilnað, hverjar svo sem ástæðurnar kunna að vera, ef hjón eru sammála um það og engir sérstakir hagsmunir eru fyrir hendi sem krefjast annars.“

Til þess að slík lög gildi mega hjón ekki eiga sameiginlega eignir né börn undir 18 ára aldri nema búið sé að ná samkomulagi um forræði fyrir börnum, framfærslueyri og aðra skilnaðarsáttmála.

Ekki hlutverk hins opinbera

Í frumvarpinu kemur fram að hvergi í íslenskum lögum sé gert ráð fyrir því að tveir fullorðnir einstaklingar vilji einfaldlega skilja. Þá telja flutningsmenn það ekki vera í hlutverk hins opinbera að takmarka heimild hjóna til lögskilnaðar ef engir sérstakir hagsmunir eru fyrir hendi sem krefjast þess.