Andrés Ingi Jónsson, alþingismaður, er genginn til liðs við Pírata. Þetta kemur fram í tilkynningu. Andrés Ingi hefur undanfarið verið óháður þingmaður, eftir að hafa sagt sig úr Vinstri grænum.

Í tilkynningu sinni segir Andrés að ákvörðunin hafi ekki verið einföld, hún hafi verið tekin eftir mikla yfirlegu.

„Ég vil vera hluti af hóp sem er hægt að treysta til að taka djarfar ákvarðanir og tel að innan þingflokks Pírata muni hugsjónum mínum vera best borgið. Í framhaldinu mun ég gefa kost á mér í prófkjöri Pírata til að sjá hvort grasrótin vilji treysta mér fyrir áframhaldandi verkefnum eftir kosningar.“

Þá segir Andrés að hann hafi alltaf unnið vel með Pírötum á þingi. Sama sé hvort litið sé á aðgerðir í kringum uppreist æru, baráttuna fyrir réttindum hælisleitenda eða samstarf í fastanefndum þingsins.

„Sem hluti af þingflokki Pírata gefst mér tækifæri til að vera hluti af hóp sem er í lykilstöðu til að gera samfélagið okkar betra fyrir okkur öll, þátttakandi í hreyfingu sem getur séð til þess að eftir næstu kosningar verði mynduð ríkisstjórn sem nær ekki bara utan um lægsta samnefnara heldur alvöru breytingar í þágu mannréttinda, fólksins í landinu og framtíðarinnar. Á þingi hef ég lagt mikla áherslu á loftslagsmál, eflingu lýðræðis og jafnrétti og veit að á þeim sviðum get ég tekið þátt í að móta sannfærandi og öfluga kosningastefnu Pírata fyrir haustið.“

Þingflokkur Pírata samþykkti einróma að bjóða Andrés Inga velkominn í hópinn á þingflokksfundi í morgun, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Þar segir að Andrés Ingi og þingflokkurinn hafi átt í góðu samstarfi, flutt saman fjölda þingmála og unnið náið saman í nefndum þingsins. Með tímanum hafi komið í ljós að um er að ræða náttúrulega bandamenn með margar sameiginlegar áherslur.

Segir ennfremur að Andrés sé gríðarlega öflugur þingmaður sem hafi áorkað miklu einn síns liðs og sé því mikill fengur fyrir þingflokk Pírata. Hann sé hugsjónamaður með sterka réttlætiskennd sem þori að færa rök fyrir stórum hugmyndum. „Við lítum því á inngöngu Andrésar í þingflokkinn, sem og flokkinn í heild, sem góðan liðsstyrk fyrir verkefnin framundan,“ segir í tilkynningunni.

Segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaþingflokksformaður Pírata, að ánægjulegt sé að fá liðsstyrkinn. „Það er ótrúlega ánægjulegt að fá Andrés Inga til liðs við okkur enda er hann frábær þingmaður, fylginn sér og einstaklega faglegur stjórnmálamaður.

Við Píratar og Andrés Ingi höfum alltaf unnið vel saman og stefnum að sama marki hvort sem málin varða gagnsæi, varnir gegn spillingu eða loftslagsmál. Andrés hefur sannað sig sem öflugur talsmaður fyrir umhverfisvernd, jafnrétti og lýðræði og við Píratar erum mjög hreykin að fá jafn öflugan þingmann til okkar.“