Stórframkvæmdum á ferjunni Norrænu er að ljúka og aðeins innréttingavinna eftir. Kostnaðurinn er talinn vera nálægt 16 milljónum dollara, eða rúmum 2 milljörðum íslenskra króna. Skipið fór í slipp þann 19. desember í Fayard skipasmiðjuna í Mynkebo í Danmörku.

Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi, segir framkvæmdirnar hafa gengið vel og vera á áætlun. Þegar tilkynnt var um breytingarnar í september var stefnt á að ferjan yrði ferðbúin 6. mars næstkomandi og enn er staðið við þá dagsetningu.

„Við erum að setja ferjuna í andlitslyftingu sem var kominn tími á,“ segir Linda. Ferjan var smíðuð árið 2003 í Þýskalandi en þar áður hafði eldri ferja siglt frá árinu 1984. Með nýju breytingunum verður 50 káetum fyrir 100 farþega bætt við ofan á skipið sem heilli hæð. Ýmsum nýjungum, svo sem útibar og heitum pottum, verður komið fyrir um borð. Þá er einnig verið að gera ýmsar endurbætur á öðrum hlutum skipsins, svo sem veitingastöðum.

Hinar nýju káetur eru skilgreindar sem lúxuskáetur en Linda segir að Smyril Line sé ekki í auknum mæli að stíla inn á farþega sem geta leyft sér meiri lúxus. Það sé hópur sem hafi alltaf siglt með ferjunni. Í gegnum tíðina hafi káeturnar verið endurbættar en nú hafi verið kominn sá tímapunktur að taka þróunina skrefi lengra.

Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi, er bjartsýn á breytingarnar.

Aðspurð um væntingarnar fyrir ferðamannasumarið í ljósi faraldursins segir Linda þær sveiflast en haldið sé í bjartsýnina. „Væntingarnar núna eru að upp úr miðju sumri fari að glæðast og fólk fari að hugsa sér til hreyfings. Við finnum að það eru allir í biðstöðu og vilja sjá hvernig bólusetningarnar ganga bæði í þeirra löndum og á Íslandi,“ segir hún. Á hún þá einna helst við ferðamenn frá Skandinavíu og meginlandi Evrópu sem hafa hug á að heimsækja Ísland.

Í viðtali við skipasmíðamiðilinn Maritime Professional segir Jóhan av Reyni, hinn færeyski forstjóri Smyril Line, að verkefnið hafi verið mikil áskorun. „Það voru ýmsir hlutir sem hefðu getað orðið að hindrunum, svo sem hvort að skipið gæti borið meiri þunga, en þetta reyndust vera ákaflega athyglisverðar endurbætur,“ segir hann.

Útboð verkefnisins, sem endaði í höndum danskra hönnuða og skipasmíðamanna, hófst fyrir tæpu ári síðan þegar faraldurinn var að blossa upp í gervallri Evrópu. „Í byrjun virtist þetta ómögulegt en við ákváðum að halda áfram með verkefnið af því að við vissum að faraldurinn mun taka enda,“ segir Jóhan.