„Kvíði hefur aukist meira meðal stúlkna en stráka. Við höfum verið að velta því fyrir okkur heilmikið hver orsökin gæti verið og hvernig stæði á því. Við erum að rýna gögnin eins og er,“ segir Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og lýðheilsudeild Columbia-háskóla í New York, sem kynnti nýjar niðurstöður úr tveimur rannsóknum á ráðstefnu um Grunnskóla og geðheilbrigði í síðustu viku. Rannsóknirnar tvær sýna að andlegri líðan ungmenna hrakar mikið á milli fyrstu bylgju COVID-faraldursins og þeirrar þriðju.

Önnur rannsóknin byggir á könnun Rannsókna og greiningar, sem var lögð fyrir rúmlega níu þúsund nemendur í þremur efstu bekkjum grunnskóla nú í haust – í samstarfi við sveitarfélög um allt land. Hin er hluti af stórri rannsókn þar sem árgangi ungmenna sem fædd eru árið 2004 er fylgt eftir og kallast Lifecourse.

Inga Dóra sýndi í fyrirlestri sínum svokallaðan vellíðunar­kvarða sem fer víðast hvar niður í þriðju bylgju, hvert sem litið er. „Það er ekkert skrítið að unglingarnir séu kvíðnir því ástandið er óvenjulegt. Þessi daglegi strúktúr sem er ekki lengur til staðar er líklegri til að valda stelpunum meiri kvíða en strákum. Svo þekkjum við vel að félagslegt umhverfi og vinahópurinn og þessi félagslegu tengsl tengjast andlegri líðan sterkar meðal stelpna en stráka.“

Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor við sálfræðideild Háskóla Íslands.
Fréttablaðið / Stefán

Samband við fjölskyldu fer hratt niður á við frá fyrstu bylgju og til þriðju. „Við höfum lagt mikla áherslu á samverustundir foreldra og barna og unglinga, en í þessu ástandi eru vísbendingar um að samveran valdi meira álagi á heimilinu, sem er kannski eðlilegt. Það eru allir að reyna að vinna og fá vinnufrið,“ segir Inga Dóra.

Hún segir að kosturinn við Ísland sé að það séu meiri líkur en minni á að hægt verði að vinda ofan af þessari COVID-kynslóð sem elst nú upp fyrir framan tölvuskjá og má ekki hitta neinn. „Eins og í mörgu þegar kemur að málefnum barna og unglinga þá er Ísland fyrirmynd. Við erum vön að vinna með niðurstöður rannsókna. Ég er bjartsýn á að við náum að vinda ofan af þessu þegar við erum búin að skilja nákvæmlega orsakirnar og hvað það er sem við þurfum að vinna í að bæta. Eins og alltaf erum við í rannsóknunum í nánu samstarfi við félaga okkar í stefnumótun og starfi á vettvangi.

Sveitarfélög víða um land eru þegar búin að hrinda af stað ýmsum góðum verkefnum með það að markmiði að bæta líðan ungmenna,“ segir hún, en samstarfsfólk hennar liggur nú yfir rannsóknunum sem verða kynntar á foreldraþingi í samstarfi Rannsókna og greiningar og sveitarfélaga þann 9. desember.