Fyrstu niðurstöður COVIDMENT-rannóknarverkefnisins, sem nær til nærri 400 þúsund manns í sex löndum, benda til þess að andleg líðan fólks í kórónaveiru­faraldrinum sveiflist með nýgengi Covid-19-smita.

Að COVIDMENT-rannsóknarverkefninu koma vísindamenn frá háskólum og stofnunum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Eistlandi og Skotlandi auk Íslands, en verkefnið leiðir Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Háskóla Íslands.

Svipaðar niðurstöður og í hinum löndunum

Í samtali við Fréttablaðið segir Unnur að Ísland skeri sig ekki sérstaklega úr í samanburði við önnur lönd, heldur séu niðurstöðurnar svipaðar í löndunum sex.

„Við erum að fara í frekari greiningar á sérstökum sóttvarnaráðstöfunum á milli landa. Þetta var í raun bara fyrsta skrefið,“ segir Unnur.

Fyrstu niðurstöður rannsóknarhópsins voru birtar í International Journal of Epidemiology um helgina. Almennt reyndist tíðni þunglyndiseinkenna hæst hjá ungu fólki og meðal kvenna. Þá sýndu niðurstöðurnar að tíðni þunglyndiseinkenna var mest þegar meðalfjöldi staðfestra vikulegra Covid-19-tilfella á hverja 100.000 einstaklinga var 30, eða ríflega 60 prósentum meiri en þegar meðalfjöldi staðfestra vikulega Covid-19 tilfella var 0.

Konur sýna almennt meiri þunglyndiseinkenni

Samkvæmt Unni sýna konur almennt séð meiri þunglyndiseinkenni en karlar, hvort sem það er Covid eða ekki Covid, en það sem valdi áhyggjum sé að ungt fólk sýni mikil þunglyndiseinkenni.

„Þau, í öllum löndum, eru að skora einstaklega hátt. Það er í takt við rannsóknir sem við höfum séð hérlendis varðandi unglinga. Þær sýna að það er aukin vanlíðan meðal ungs fólks.“

Spurð hvort ítrekuð fjölmiðlaumfjöllun um smittölur hafi einhver áhrif, segir Unnur að það sé ekki búið að rannsaka það sérstaklega.

„Þessi heimsfaraldur er náttúrulega alltumlykjandi. Þessar smittölur eru bara táknrænar fyrir svo margt sem er í gangi. Ótti um smit eða ótti um fjölskylduna. Það er hert að okkur varðandi að hitta annað fólk, sem er okkur mikilvægt fyrir okkar andlegu heilsu. Þessi ótti og þessar breytingar sem verða á högum okkar þegar smittölur hækka, gera það að verkum að við förum að óttast um eigin heilsu og annarra í kringum okkur. Fjölmiðlar flytja bara fréttir af ástandinu eins og það er,“ segir Unnur.

Ekki varanleg áhrif á líðan

Spurð hvernig hertar aðgerðir spili inn í vanlíðan fólks í faraldrinum, segir Unnur að það sé mjög erfitt að aðskilja þær frá smittölunum. „Við eigum eftir að rýna aðeins betur í það. Hvað það er nákvæmlega sem veldur. Hvort þetta séu smittölurnar sjálfar og óttinn við að verða veikur og síðan hvaða sértæku áhrif samkomutakmarkanirnar hafa,“ segir Unnur.

Aðspurð telur Unnur ekki að andlegir erfiðleikar vegna Covid eigi eftir fylgja fólki eftir að faraldrinum lýkur. „Mér finnst þessar niðurstöður sýna að það sé hreyfanleiki í líðan og við erum jafn fljót að hreyfast til baka þegar smittölurnar fara niður. Þannig að ég hef ekki trú á því að það séu mikil langvinn áhrif,“ segir Unnur og bætir við að þetta verði rannsakað áfram í þessu alþjóðlega samstarfi.