And­lát mannsins sem lést í Sund­höll Reykja­víkur á fimmtu­daginn er rann­sakað sem vinnu­slys að sögn Jóhanns Karls Þóris­sonar, yfir­lög­reglu­þjóns á höfuð­borgar­svæðinu.

Maðurinn, sem var á fertugsaldri, var að störfum í sundlauginni en hann starfaði í geðþjónustu og var með skjólstæðingi sínum í sundlauginni.

Dánar­or­sök mannsins hefur enn ekki verið gefin upp en hann lá á botni sund­laugarinnar í sex mínútur áður en laugar­verðir hófu björgunar­að­gerðir. Til­raunir til endur­lífgunar báru ekki árangur.

Allar hliðar málsins rannsakaðar

„Það þarf að bíða eftir krufningu og öðru áður en hægt er að upp­lýsa frekar um stöðu málsins,“ segir Jóhann í sam­tali við Frétta­blaðið. Til stendur að ræða við starfs­menn Sund­hallarinnar til að varpa frekari ljósi á at­burða­rásina.

Þá á eftir að fara yfir mynd­bönd af slysinu og ræða frekar við vitni. „Þetta mál verður rann­sakað frá öllum hliðum,“ bætir Jóhann við.

Að­standandi mannsins sagði í sam­tali við blaða­mann að margar spurningar hafa vaknað í tengslum við and­látið, þá sér­stak­lega hvers vegna enginn hafi verið að vakta laugina í þessar sex mínútur. Að hans mati hefði verið hægt að koma í veg fyrir and­látið.