Andlát mannsins sem lést í Sundhöll Reykjavíkur á fimmtudaginn er rannsakað sem vinnuslys að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, yfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu.
Maðurinn, sem var á fertugsaldri, var að störfum í sundlauginni en hann starfaði í geðþjónustu og var með skjólstæðingi sínum í sundlauginni.
Dánarorsök mannsins hefur enn ekki verið gefin upp en hann lá á botni sundlaugarinnar í sex mínútur áður en laugarverðir hófu björgunaraðgerðir. Tilraunir til endurlífgunar báru ekki árangur.
Allar hliðar málsins rannsakaðar
„Það þarf að bíða eftir krufningu og öðru áður en hægt er að upplýsa frekar um stöðu málsins,“ segir Jóhann í samtali við Fréttablaðið. Til stendur að ræða við starfsmenn Sundhallarinnar til að varpa frekari ljósi á atburðarásina.
Þá á eftir að fara yfir myndbönd af slysinu og ræða frekar við vitni. „Þetta mál verður rannsakað frá öllum hliðum,“ bætir Jóhann við.
Aðstandandi mannsins sagði í samtali við blaðamann að margar spurningar hafa vaknað í tengslum við andlátið, þá sérstaklega hvers vegna enginn hafi verið að vakta laugina í þessar sex mínútur. Að hans mati hefði verið hægt að koma í veg fyrir andlátið.