Atli Heimir Sveinsson tónskáld er látinn, áttræður að aldri. Frá þessu er greint á vef RÚV en fjölskylda tónskáldsins sendi tilkynningu frá sér. Atli var á meðal virtustu tónskálda Íslands en eftir hann liggur fjöldi tónverka.

Atli Heimir fæddist í Reykjavík 21. september árið 1938. Hann stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk lokaprófi í tónsmíðum og tónfræði frá Staatliche Hochschule für Musik í Köln árið 1963.

Hann nam síðan raftónlist í Hollandi 1964 og sótti Kölner Kurse für neue Musik hjá Karlheinz Stockhausen í fyrsta skipti sem þeir voru haldnir árið 1965.

Atli Heimir var einn af upphafsmönnum nútímatónlistar á Íslandi og jafnvígur á alla tegund tónlistar. Eftir hann liggur mikill fjölda tónverka þar á meðal tíu einleikskonsertar og sex sinfóníur, auk fjölda einleiks- og kammerverka.

Hann samdi fimm óperur, þar á meðal Silkitrommuna sem var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu árið 1980 og síðar á leiklistarhátíð í Venesúela. Sjónvarpsóperan Vikivaki var sýnd samtímis um öll Norðurlönd 1982, og Tunglskinseyjan var frumsýnd í Peking 1996 og síðar í sett upp í Þjóðleikhúsinu. Þá ber að nefna ballettóratóríuna Tímann og vatnið við ljóðabálk Steins Steinars sem frumflutt var á Listahátíð 1997.

Atli Heimir var einn af upphafsmönnum nútímatónlistar á Íslandi og jafnvígur á alla tegund tónlistar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Atli Heimir samdi einnig mikinn fjölda sönglaga og kórverka, meðal annars fyrir Hamrahlíðarkórinn, og tónverk hans við ljóð Jónasar Hallgrímssonar og Halldórs Laxness eru þjóðþekkt.

Hann samdi einnig margvíslega leikhústónlist og má þar nefna Dimmalimm, Dansleik, Ofvitann, Ég er gull og gersemi, Sjálfstætt fólk, Mýrarljós og söngleikinn Land míns föður. Kvæðið um fuglana, við ljóð Davíðs Stefánssonar, var flutt við vígslu tónlistarhússins Hörpu árið 2011.

Árið 1976 hlaut Atli Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs fyrstur Íslendinga fyrir flautukonsert sinn. Árið 1978 hlaut hann síðan L’ordre du merite culturel frá Póllandi og var var kjörinn meðlimur í Konunglegu sænsku tónlistarakademíuna árið 1993.

Hann hélt fyrirlestra við ýmsa háskóla víða um heim og var gestakennari við CalArts í Los Angeles og Brownháskólann í Providence, Rhode Island. Þá var hann staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 2004-2007.

Einnig var Atli kennari í tónsmíðum og tónfræðum við Tónlistarskólann í Reykjavík, og annaðist vinsæla tónlistarþætti fyrir RÚV öðru hverju um árabil. Aukinheldur var hann formaður Tónskáldafélags Íslands frá 1972-1983 og formaður Norræna tónskáldaráðsins 1974-1976.

Hann skipulagði tónlistarhátíð og aðalfund hins alþjóðlega félags nútímatónlistar árið 1973 og Norræna músikdaga 1976. Þá stofnaði Atli Myrka músikdaga árið 1980. Þessar hátíðir mörkuðu tímamót í íslensku tónlistarlífi og mynduðu ný tengsl milli Íslands og umheimsins.

Sif Sigurðardóttir eiginkona Atla lést árið 2018. Synir Atla Heimis eru Teitur f. 1969 og Auðunn f. 1971. Barnabörnin eru sjö.