Samkvæmt yfirferð dánarvottorða hjá embætti landlæknis létust 153 vegna Covid-19 á Íslandi frá upphafi faraldursins til 1. apríl síðastliðinn.

Andlátin eru því fleiri en upphaflega var talið en á vefnum Covid.is er tala andláta vegna faraldursins skráð 120.

Á vef landlæknis kemur fram að andlát vegna Covid-19 séu talin þar sem veiran hefur greinst í einstakling innan 28 daga fyrir andlátið og valdið dauða viðkomandi samkvæmt dánarvottorði.

Ekki öll andlát tilkynnt

Samkvæmt landlækni berast dánarvottorð ekki til embættisins fyrr en mörgum vikum eftir andlát og eru þau því ekki talin hentug til að fylgjast með dánarorsökum í rauntíma.

Sjúkrahús höfðu sent tilkynningar um andlát vegna Covid-19 til sóttvarnalæknis frá upphafi og bárust 101 tilkynning á ofangreindu tímabili. Miðað við dánarvottorðin voru tvö andlát ekki tilkynnt árið 2020 og árið 2022 voru 50 andlát ekki tilkynnt.

Meðvituð um misræmið

Ástæða þess að ekki öll dauðsföll voru tilkynnt beint til sóttvarnalæknis er sögð vera vegna þess að ekki var óskað eftir því fyrr en í lok febrúar 2022 að allar heilbrigðisstofnanir sendu slíkar tilkynningar.

Þá voru hjúkrunarheimili ekki að senda tilkynningar beint til sóttvarnalæknis í byrjun árs og hafa ekki öll haft tök á að senda þær.

Á vef landlæknis segir að hjúkrunarheimili og sóttvarnalæknir hafi verið meðvituð um misræmið og að endanlegur fjöldi andláta vegna Covid-19 lægi ekki fyrir fyrr en eftir yfirferð dánarvottorða.