Pétur Magnús­son, for­stjóri Hrafnistu, segir upp­lifun að­stand­enda manns sem lést 31. októ­ber síðast­liðinn ekki vera lýsingu á raun­veru­legri at­burða­rás. „Okkur þykir mjög miður að heyra af upp­lifun við­komandi ættingja varðandi and­látið,“ segir Pétur í til­kynningu vegna málsins.
Barna­barn mannsins sem lést á Hrafnistu í Hafnar­firði deildi ný­verið færslu á Face­book þar sem síðustu stundum afa hennar, sem var íbúi á Hrafnistu, var lýst með ítar­legum hætti. „Ég vil trúa því að afi hafi gengið sáttur frá borði en það gerum við hin svo sannar­lega ekki og það er ó­lýsandi til­finning að etja við.“

Drukknaði í eigin blóði

Í færslunni lýsir hún að­draganda and­látsins og því að í­trekað hafi verið óskað eftir læknis­að­stoðar án árangurs. Þá segir hún frá því þegar hún og móðir hennar studdu við afa hennar á meðan úr honum helltist lítri af blóði. „Við horfðum í sak­lausu augun hans á meðan hann reyndi af öllum lífsins krafti að ná andanum en blóðið var orðið það mikið að hann drukknaði í eigin blóði að lokum.“
Að sögn Péturs er mikil­vægt að það komi fram að and­lát beri að með mis­munandi hætti og ráða þar margir mis­munandi þættir, meðal annars líkam­legt á­stand. „Vegna þagnar­skyldu getum við ekki tekið þátt í opin­berri um­ræðu um mál­efni ein­stakra íbúa okkar,“ segir Pétur.

Maðurinn var tiltölulega nýfluttur inn á Hrafnistu. Mynd tengist frétt ekki beint.
Fréttablaðið/Valli

Læknir hvergi sjáanlegur

Þá stað­festir Pétur að læknir hafi verið á bak­vakt um­rætt kvöld en barna­barnið kvað engan lækni hafi sinnt afa hennar á hans síðustu og verstu stundum. „Þegar á­standið var síðan orðið sem verst var mamma mín farin í ör­væntingu sinni að hlaupa um gangana frammi í leit að ein­hverri hjálp, hjálp sem aldrei kom, því jú það var allt í lagi með hann og við bara móður­sjúkar.“

Barna­barnið lýsti því einnig að undir­mannað hafi verið á deildinni kvöldið sem afi hennar lést en það til­heyri frekar reglu en undan­tekningu á Hrafnistu. „Hann var búinn að æla á fötin sín og þær sáu sér ekki einu sinni sóma til þess að taka hann úr ælu­fötunum svo við mamma fórum að puða við það að reyna að skipta um föt á honum því þær máttu ekki vera að því.“

Pétur kannast ekki við að undir­mannað sé á deildum Hrafnistu. „. Í því til­viki sem hér er gert að um­tals­efni var verk- og gæða­ferlum fylgt af vakt­hafandi heil­brigðis­starfs­fólki Hrafnistu og gætt var sam­ráðs við íbúa og að­stand­endur í ferlinu.“

Ber fulla virðingu fyrir tilfinningum aðstandenda

Forstjórinn harmar fréttaflutning af málinu og hvetur fjölmiðla til að sýna nærgætni. „Hrafnista ber fulla virðingu fyrir tilfinningum aðstandenda og íbúa og reyndir heilbrigðisstarfsfólk sitt allra besta til að umgangast alla af fyllstu nærgætni. Þá geti andlát nákomins ættingja verið afar erfið aðstandendum. „Samkvæmt verkferlum verður send tilkynning um málið til Embættis landlæknis,“ segir Pétur að lokum.