„Mér fannst við hæfi í ljósi sögunnar og verkefnisins að líta til þeirra og mér var afar vel tekið,“ segir Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, en hann fór í heimsókn í bækistöðvar Konunglega breska flughersins við Lossiemouth í Skotlandi fyrir skömmu, þar sem hann skoðaði meðal annars eftirlitsflugvélina Spirit of Reykjavík.

Flugvélin er nefnd eftir Reykjavík til að heiðra hlutverk Íslendinga í sigri bandamanna í orrustunni um Atlantshafið í seinni heimsstyrjöldinni. Sú sveit sem hér var, 120. flugsveitin, er með fálka í merkinu sínu. „Flugsveitin var staðsett á Íslandi 1943-1945 og eltist við þýska kafbáta á Atlantshafi.

Flugherinn hefur verið að endurnýja flotann sinn og er að taka í notkun Poseidon eftirlitsflugvélar. Fyrstu fimm hafa fengið nöfn eins og Pride of Moray, City of Elgin, Spirit of Reykjavik og Fulmar.

Sturla segir að heimsóknin, sem hann fór í ásamt konu sinni Elínu Jónsdóttur, hafi verið bæði fróðleg og skemmtileg.

Hann segir að síðan í maí hafi hann verið að reyna að bæta upp fyrir tapaðan tíma sem Covid-faraldurinn olli.

Sturla segir að bjartsýni ríki nú um allt England, þar sem knattspyrnulandsliðið hafi verið að gleðja landsmenn með góðum árangri á Evrópumótinu í fótbolta. Samfélagið hafi þjáðst í Covid-faraldrinum en nú megi sjá bros á vör víða um götur London.

„Þeir gera sér vonir um að gera góða hluti á Evrópumótinu. Ég heyri ekki annað á tali fólks og í fjölmiðlum. Þeir eru bjartsýnir og mikil spenna.“

Englendingar mæta Úkraínu í Rómarborg í dag og tekur Sturla undir það að ensk þjóðarsál hafi þurft á smá gleði að halda. „Algjörlega. Sigurinn gegn Þýskalandi skipti þá miklu máli og fyrst það tókst held ég að þeir hyggi á frekari landvinninga – ef ég get tekið þannig til orða.“