Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, var í dag kjörin nýr formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins á landsþingi hans. Andersson tekur við flokksforystunni af Stefan Löfven forsætisráðherra, sem tilkynnti í ágúst síðastliðinn að hann hygðist segja af sér. Andersson var ein í framboði og hlaut einróma stuðning flokksmanna til að leiða Jafnaðarmannaflokkinn.

Líkur eru á því að Andersson taki við af Löfven sem forsætisráðherra Svíþjóðar og verði þar með fyrst kvenna til að setjast á forsætisráðherrastól í landinu. Áður en að því kemur verður hún þó að vinna sér traust þingsins og ekki er loku skotið fyrir það að henni verði hafnað.

Jafnaðarmenn sitja nú í ásamt Græningjum í minnihlutastjórn sem studd er af Miðflokknum, Frjálslynda flokknum og Vinstriflokknum. Sú stjórn hefur þó reynst fallvölt, en stjórnin féll fyrir vantrauststillögu í júní fyrr á árinu. Löfven tókst hins vegar að semja um áframhaldandi stjórnarsetu eftir að stjórnarandstöðunni tókst ekki að mynda nýjan meirihluta.

Svíþjóð er eina Norðurlandið sem aldrei hefur haft konu sem forsætisráðherra og Stefan Löfven var um skeið, frá desember 2019 til október 2021, eini sitjandi norræni karlforsætisráðherrann. Aðeins ein kona, Mona Sahlin, hefur áður verið formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins en flokkurinn sat í stjórnarandstöðu á formannstíð hennar.