Magdalena Andersson er fyrsti kvenforsætisráðherra Svíþjóðar, þetta staðfesti sænska þingið með atkvæðagreiðslu í morgun.

Með kjöri Andersson hefur verið brotið blað í sögunni því nú hafa konur gegnt embætti forsætisráðherra á öllum Norðurlöndunum.

Andersson var aðeins einu atkvæði frá því að hafa meirihluta þingsins á móti sér. Alls kusu 174 á móti henni en þeir hefðu þurft að vera 175 til að koma í veg fyrir kjör hennar.

Sænska þingið samanstendur af 349 þingmönnum og virkar kerfið þannig að það nægir að tryggja það að ekki sé meirihluti á móti kandídat.

Jafnt var á milli atkvæða þeirra sem kusu gegn því að Andersson tæki við embættinu, alls 174 og þeim sem kusu með því að hún tæki við embættinu og þeirra sem sátu hjá en þeirra atkvæði voru samtals 174.

Anderssen sem er 57 ára gömul tók við af Stefan Löfven sem formaður sænska jafnaðarflokksins í haust og tekur nú við af honum sem forsætisráðherra landsins.

Löfven hefur gegnt embættinu frá árinu 2014 en tilkynnti í ágúst að hann hygðist segja af sér.

Má ætla að stærsta verk Andersson verði að tryggja sínum flokki nægt fylgi til að halda völdum en næstu þingkosningar í Svíþjóð hafa verið boðaðar hausið 2022.