Frum­varp Katrínar Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra um heimild Reykja­víkur­borgar til að skipa nefnd til að kanna starf­semi vöggu­stofa var sam­þykkt á Al­þingi í gær.

Hrafn Jökuls­son, einn þeirra sem hefur barist fyrir vöggu­stofu­málinu frá upp­hafi, fagnar því að það sé komið í góðan far­veg.

„Þetta er mikill gleði­dagur, þetta er mikil­vægt skref í átt til rétt­lætisins. Ég er þakk­látur öllum þeim sem studdu að fram­gangi þessa máls sem ríkti al­ger eining um. Sem sýnir hvað þetta er mikil­vægt mál og hátt yfir alla pólitík hafið, af því að þetta snýst um annars vegar mann­leg ör­lög og hins vegar hvernig farið var með börn í Reykja­vík.“

Kosið var um vöggu­stofu­frum­varpið á Al­þingi í gær sem var sam­þykkt með yfir­gnæfandi meiri­hluta en 54 þing­menn kusu já og 9 voru fjar­staddir. Hrafn kveðst vera þakk­látur for­sætis­ráð­herra og þinginu fyrir að taka málið svo föstum tökum en að­dragandinn var mjög langur og um tíma leit út fyrir að málið væri að koðna niður innan stjórn­sýslunnar.

„Það var al­gjör sam­staða aldrei þessu vant og guð blessi þingið fyrir að taka á sig rögg og af­greiða þetta mál fljótt og vel. Því það eru mjög margir að bíða og biðin er erfið og þess vegna er þetta risa­stór á­fangi,“ segir hann.

Viðar Eggertsson, Hrafn Jökulsson og Árni H. Kristjánsson á fundi borgarritara í mars síðastliðnum.
Fréttablaðið/Valli

Nefndin fari form­lega af stað

Næstu skref málsins eru skipun rann­sóknar­nefndar af hálfu Reykja­víkur­borgar til að kanna starf­semi þeirra vöggu­stofa sem reknar voru af borginni á síðustu öld.

Helstu mark­mið nefndarinnar verða að lýsa starf­semi vöggu­stofanna, hvernig komið var fram við börnin en í­trekað hefur verið greint frá slæmri með­ferð og of­beldi sem þau máttu sæta, kanna af­drif vöggu­stofu­barnanna og að lokum að leggja grund­völl að til­lögum um frekari við­brögð ef á­stæða þykir til.

Þor­steinn Gunnars­son, borgar­ritari, segir að stefnt sé að því að leggja skipun rann­sóknar­nefndarinnar fyrir á næsta borgar­ráðs­fundi.

„Nú eru þær laga­heimildir komnar sem okkur vantaði til að fara af stað. Það er þá á­ætlað á næsta borgar­ráðs­fundi sem er í þar­næstu viku að þá verði lagðar fram til­nefningar í nefndina sem að mun fara í út­tektina og í kjöl­farið af því þá fer bara nefndin form­lega af stað.“

Að sögn Þor­steins er miðað við að rann­sóknar­nefndin ljúki störfum í mars 2023 en eitt af fyrstu verk­efnum hennar verður að setja sér verk­á­ætlun og við­búið er að á­ætlunin gæti eitt­hvað breyst.

Ég er þakk­látur öllum þeim sem studdu að fram­gangi þessa máls sem ríkti al­ger eining um. Sem sýnir hvað þetta er mikil­vægt mál og hátt yfir alla pólitík hafið. -Hrafn Jökulsson

Sáttir við fram­göngu málsins

Katrín Jakobs­dóttir lagði fram frum­varpið um vöggu­stofur 8. apríl og var það sam­þykkt af þinginu 9. júní, næstum ná­kvæm­lega tveimur mánuðum síðar. Þor­steinn Gunnars­son kveðst vera einkar þakk­látur sam­starfinu við Katrínu og segir þetta hafa tekið mun skemmri tíma en búist var við.

„Við erum mjög þakk­lát for­sætis­ráð­herra og hennar ráðu­neyti fyrir sam­starfið og hversu vel þau tóku í þetta erindi okkar um þessar laga­heimildir og sömu­leiðis Al­þingi fyrir að taka svona vel í þetta. Hvað þetta tók í raun og veru ó­trú­lega skamman tíma sem sýnir að það er mikill vel­vilji út af þessu máli,“ segir hann.

Hrafn tekur í svipaðan streng spurður um hvort hann og eftir­lifandi fjór­menningar Árni H. Kristjáns­son, Tómas V. Alberts­son og Viðar Eggerts­son séu á­nægðir með með­höndlun stjórn­sýslunnar á málinu.

„Í það heila tekið þá hljótum við að vera mjög sáttir við það hversu al­var­lega þessu erindi var tekið og að það er verið að með­höndla málið í sam­ræmi við al­var­leika þess. Við finnum það og kunnum að meta það. Nú er bara næsta skref að taka við og það er hin raun­veru­lega rann­sókn. Svör við spurningunum; af hverju var þetta gert svona og hins vegar, hvað varð um vöggu­stofu­börnin, hvernig reyndi þeim af í lífinu?“