Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa var samþykkt á Alþingi í gær.
Hrafn Jökulsson, einn þeirra sem hefur barist fyrir vöggustofumálinu frá upphafi, fagnar því að það sé komið í góðan farveg.
„Þetta er mikill gleðidagur, þetta er mikilvægt skref í átt til réttlætisins. Ég er þakklátur öllum þeim sem studdu að framgangi þessa máls sem ríkti alger eining um. Sem sýnir hvað þetta er mikilvægt mál og hátt yfir alla pólitík hafið, af því að þetta snýst um annars vegar mannleg örlög og hins vegar hvernig farið var með börn í Reykjavík.“
Kosið var um vöggustofufrumvarpið á Alþingi í gær sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta en 54 þingmenn kusu já og 9 voru fjarstaddir. Hrafn kveðst vera þakklátur forsætisráðherra og þinginu fyrir að taka málið svo föstum tökum en aðdragandinn var mjög langur og um tíma leit út fyrir að málið væri að koðna niður innan stjórnsýslunnar.
„Það var algjör samstaða aldrei þessu vant og guð blessi þingið fyrir að taka á sig rögg og afgreiða þetta mál fljótt og vel. Því það eru mjög margir að bíða og biðin er erfið og þess vegna er þetta risastór áfangi,“ segir hann.

Nefndin fari formlega af stað
Næstu skref málsins eru skipun rannsóknarnefndar af hálfu Reykjavíkurborgar til að kanna starfsemi þeirra vöggustofa sem reknar voru af borginni á síðustu öld.
Helstu markmið nefndarinnar verða að lýsa starfsemi vöggustofanna, hvernig komið var fram við börnin en ítrekað hefur verið greint frá slæmri meðferð og ofbeldi sem þau máttu sæta, kanna afdrif vöggustofubarnanna og að lokum að leggja grundvöll að tillögum um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.
Þorsteinn Gunnarsson, borgarritari, segir að stefnt sé að því að leggja skipun rannsóknarnefndarinnar fyrir á næsta borgarráðsfundi.
„Nú eru þær lagaheimildir komnar sem okkur vantaði til að fara af stað. Það er þá áætlað á næsta borgarráðsfundi sem er í þarnæstu viku að þá verði lagðar fram tilnefningar í nefndina sem að mun fara í úttektina og í kjölfarið af því þá fer bara nefndin formlega af stað.“
Að sögn Þorsteins er miðað við að rannsóknarnefndin ljúki störfum í mars 2023 en eitt af fyrstu verkefnum hennar verður að setja sér verkáætlun og viðbúið er að áætlunin gæti eitthvað breyst.
Ég er þakklátur öllum þeim sem studdu að framgangi þessa máls sem ríkti alger eining um. Sem sýnir hvað þetta er mikilvægt mál og hátt yfir alla pólitík hafið. -Hrafn Jökulsson
Sáttir við framgöngu málsins
Katrín Jakobsdóttir lagði fram frumvarpið um vöggustofur 8. apríl og var það samþykkt af þinginu 9. júní, næstum nákvæmlega tveimur mánuðum síðar. Þorsteinn Gunnarsson kveðst vera einkar þakklátur samstarfinu við Katrínu og segir þetta hafa tekið mun skemmri tíma en búist var við.
„Við erum mjög þakklát forsætisráðherra og hennar ráðuneyti fyrir samstarfið og hversu vel þau tóku í þetta erindi okkar um þessar lagaheimildir og sömuleiðis Alþingi fyrir að taka svona vel í þetta. Hvað þetta tók í raun og veru ótrúlega skamman tíma sem sýnir að það er mikill velvilji út af þessu máli,“ segir hann.
Hrafn tekur í svipaðan streng spurður um hvort hann og eftirlifandi fjórmenningar Árni H. Kristjánsson, Tómas V. Albertsson og Viðar Eggertsson séu ánægðir með meðhöndlun stjórnsýslunnar á málinu.
„Í það heila tekið þá hljótum við að vera mjög sáttir við það hversu alvarlega þessu erindi var tekið og að það er verið að meðhöndla málið í samræmi við alvarleika þess. Við finnum það og kunnum að meta það. Nú er bara næsta skref að taka við og það er hin raunverulega rannsókn. Svör við spurningunum; af hverju var þetta gert svona og hins vegar, hvað varð um vöggustofubörnin, hvernig reyndi þeim af í lífinu?“