„Þetta er náttúru­lega bara já­kvætt. Í heildina var tekið dá­lítið mikið af sýnum í gær og þetta eru ekkert mörg smit miðað við það,“ segir Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir við Frétta­blaðið um smit­tölur gær­dagsins. Fjórir greindust með ný innan­lands­smit og voru þeir allir í sótt­kví. Fjór­tán greindust þó við landa­mærin.

Þór­ólfur segir að enn sé verið að vinna með bráða­birgða­tölur og það verði því ekki fyrr en á morgun sem hann getur séð ná­kvæm­lega hversu mörg sýni voru tekin og hver þeirra voru tekin á landa­mærum annars vegar og svo hjá fólki í sótt­kví eða með ein­kenni hins vegar.

Sýna­töku­staðir voru lokaðir síðasta föstu­dag, ný­árs­dag, og því var jafn­vel búist við því að tölur gær­dagsins yrðu eitt­hvað hærri en á venju­legum degi. Þeir sem hefðu greinst á föstu­dag hefðu þannig átt að greinast í gær. „Maður hefði svona haldið það, já,“ segir Þór­ólfur. „En helgarnar eru reyndar alltaf svo­lítið snúnar að túlka. Maður veit ekki hverjir mæta og hverjir ekki.“

Framhaldið skýrist í næstu viku

Spurður hvort bylgjan sé á niður­leið miðað við tölurnar segir Þór­ólfur: „Við erum alla­vega ekki að sjá neina upp­sveiflu. En ég held að maður bíði með stóru full­yrðingarnar þar til eftir helgi.“

Hann kveðst þó á­nægður með smit­tölur síðustu daga og segir að hans ótti um upp­sveiflu eftir jólin hafi ekki raun­gerst hingað til. „Það sem við erum að sjá í tölum síðustu daga er það sem hefur gerst upp úr og í kring um jólin. En við eigum eftir að sjá hvernig ára­mótin koma út. Það kemur í ljós í næstu viku.“

Nú­gildandi sam­komu­tak­markanir, sem miðast við tíu manns, verða í gildi til 12. janúar. Þór­ólfur telur of snemmt að segja til um hvort til­efni sé til að slaka á þeim eftir tíu daga. Hann er ekki enn farinn að huga að næstu til­lögum að reglu­gerð til heil­brigðis­ráð­herra. „Sú vinna hefst væntan­lega eftir helgi en eins og ég segi þá verðum við að sjá hvernig tölurnar verða í næstu viku.“