Hin norska Gry Hege Henriksen hefur lært að lifa lífi sínu án handa og fóta eftir að fjarlægja þurfti hluta af öllum útlimum hennar eftir blóðeitrun. Hún sótti um aðgang að fatlaðra stæðum í heimborg sinni Osló en hefur verið synjað um hann þar sem fötlun hennar er ekki talin nægilega mikil.

Fjallað hefur verið um málið á fréttasíðu norska miðilsins VG og á Nettavisen en Facebook færsla sem Henriksen birti á síðu sinni hefur einni farið í mikla dreifingu. Í færslu sinni bregst hún við synjun borgaryfirvalda sem hún segir hafa tjáð sér að hún „geti sótt verslanir með gott aðgengi eða synt erindum sínum á tímum þar sem ekki sé mikil umferð.“

Hefur skilning en þetta sé of langt gengið

Henriksen sem gekk í gegnum gríðarlega erfitt bata tímabil eftir að hún missti útlimi sína segir að hún geti nú gengið og keyrt bíl með aðstoð gervilima. En það sé þó sérstaklega erfitt fyrir hana að komast út úr bílnum þegar lítið pláss er fyrir hana. Því hafi hún óskað eftir aðgangi að fatlaðra stæðum.

„Ég kemst ekki inn og út úr bílnum án þess að opna bílhurðina alveg. Ég get ekki læðst út úr bílnum! Ég hef enga hreyfigetu í öklunum og verð því að geta snúið mér út úr bílnum og lagt fæturna á jörðina“ útskýrir Henriksen.

Henriksen segist skilja að setja þurfi upp skilmála um það hverjir fá aðgang að fatlaðra stæðum en að málið ætti að vera nokkuð augljóst í hennar tilfelli. „Auðvitað verð ég að gera kröfur sem fatlaður einstaklingur,“ sagði hún í samtali við nettavisen „En ef ég sem er ekki með hendur eða fætur fæ ekki aðgang að þessum stæðum hver fær hann þá eiginlega ? Ég þarf greinilega að láta taka af mér hausinn líka,“ sagði Henriksen.

Yfirvöld vilja lítið segja um málið

Borgaryfirvöld í Osló hafa lítið viljað tjá sig um málið og segjast ekki geta rætt einstaka mál við fjölmiðla. „Við veitum öllum íbúm sem uppfylla skilyrði okkar aðgang að þessum stæðum,“ sagði Susanne Lyng, talsmaður borgarinnar.

„Mat okkar byggist ekki einungis líkamlegri fötlun einstaklingsins heldur einnig hversu hamlaður einstaklingurinn er í hreyfingum sínum almennt,“ sagði hún en borgaryfirvöld virðast skilgreina fötlun Henriksen sem minniháttar þar sem hún getur gengið með aðstoð gerviútlima.

Lyng segir að samþykki fáist í 70 prósent tilfella þar sem sótt er um aðgang að fatlaðra stæðum almennt. Meirihluti slíkra samþykkja séu fyrir fólk sem núþegar hafi kort og vilji endurnýja það og að einungis 5000 aðgangskort séu nú í gildi.