Öldunga­deild Banda­ríkja­þings tók í gær fyrir skipun Amy Con­ey Bar­rett í Hæsta­rétt Banda­ríkjanna en skipunin var sam­þykkt með 52 at­kvæðum gegn 48. Allir þing­menn Repúblikana, nema einn, greiddu at­kvæði með skipuninni á meðan allir þing­menn Demó­krata greiddu at­kvæði gegn henni.

Líkt og áður hefur verið greint frá var Bar­rett til­nefnd af Donald Trump Banda­ríkja­for­seta í sæti Ruth Bader Gins­burg heitinnar við réttinn í lok septem­ber en til­nefningin hefur verið veru­lega um­deild.

Demó­kratar hafa gagn­rýnt það að skipun Bar­rett eigi sér stað þegar svo skammur tími er í að kosningarnar fari fram en þegar Bar­rett sór em­bættis­eið í Hvíta húsinu í gær­kvöldi var að­eins rétt rúm vika í for­seta­kosningarnar. Repúblikanar höfðu áður gagn­rýnt Demó­krata fyrir að ætla að skipa dómara á kosninga­ári.

Fleiri en 60 milljón manns hafa þegar greitt at­kvæði sín til for­seta í ár og benda kannanir til að stuðningur við Trump fari dvínandi. Trump hafði sjálfur til­kynnt að hann kæmi til með að skipa dómara sem væri lík­legur til að standa með honum í ýmsum málum í Hæsta­rétti.

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, og aðrir Demókratar hafa verið talsmenn þess að nýkjörinn dómari fái að skipa dómara en Biden sagði skipunina vera áminning um að hvert atkvæði skipti máli.

Breytt valdahlutföll

Dóms­mála­nefnd öldunga­deildarinnar tók til­nefninguna fyrir í þar síðustu viku og sam­þykkti meiri­hluti nefndarinnar að senda til­nefninguna til öldunga­deildarinnar í heild sinni en þing­menn Demó­krata snið­gengu at­kvæða­greiðslu um málið í mót­mæla­skyni.

Á fundum dóms­mála­nefndarinnar sat Bar­rett fyrir svörum, var spurð út í per­sónu­legar skoðanir sínar og hvaða á­hrif þær hefðu á störf hennar sem dómari. Hún neitaði að svara flestum spurningum Demó­krata með þeim rök­stuðningi að hún gæti ekki tjáð sig um mál sem gætu komið til kasta réttarins.

Bar­rett þver­tók þó fyrir það að per­sónu­legar skoðanir hennar, til að mynda þegar kemur að þungunar­rofi, myndu hafa á­hrif á störf hennar sem dómari. Engu að síður mun skipun Bar­rett lík­lega hafa mikil á­hrif á valda­hlut­föllin í Hæsta­rétt.

Með skipun Bar­rett eru nú í Hæsta­rétti sex dómarar sem til­heyra í­halds­samari arm réttarins á móti þremur frjáls­lyndum dómurum. Donald Trump hefur nú skipað þrjá af níu dómurum við réttinn en auk Bar­rett skipaði Trump þá Neil Gor­such og Brett Kavan­augh árin 2017 og 2018.