Íslandsdeild Amnesty International fordæmir beitingu einangrunarvistar gegn börnum í gæsluvarðhaldi í öllum tilfellum. Það gera samtökin í yfirlýsingu en fjallað hefur verið um það í fjölmiðlum að 17 ára drengur hafi verið í einangrun vegna rannsóknar lögreglunnar á stunguárásinni á Bankastræti Club.

„Beiting einangrunarvistar gegn börnum er skýrt brot gegn alþjóðlegum mannréttindalögum og viðmiðum. Afstaða samtakanna er skýr þessa efnis. Þegar einangrunarvist er beitt gegn börnum hér á landi brjóta stjórnvöld gegn alþjóðlegu banni við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Fjöldi alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að fela í sér umrætt bann,“ segir í yfirlýsingu Amnesty.

Þar er bent á að samkvæmt rannsóknum hefur einangrunarvist alvarleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu einstaklings jafnvel þó hún vari aðeins í nokkra daga. Áhrifin geti falið í sér svefnleysi, ruglingi, ofsjónum og geðrofi. Á árunum 2012 til 2021 hafa tíu börn sætt einangrun í gæsluvarðhaldi á Íslandi.

Í yfirlýsingu Íslandsdeildar Amnesty segir enn fremur að í áliti nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum í maí 2022 sé lýst áhyggjum að börn hafi sætt einangrun í gæsluvarðhaldi á Íslandi. Í tilmælum nefndarinnar til íslenskra stjórnvalda eru þau hvött til aðlaga íslensk lög að alþjóðlegum lagaramma sem leggur bann við beitingu einangrunarvistar gegn einstaklingum undir lögaldri.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur stjórnvöld að bregðast við tilmælum nefndarinnar og endurskoða laga- og verklagsramma svo tryggt sé að börn sæti aldrei einangrun í gæsluvarðhaldi í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög.