Magnús H. Jónasson
Miðvikudagur 5. ágúst 2020
11.37 GMT

Sigurður Ás­gríms­son, sprengju­sér­fræðingur hjá Land­helgis­gæslunni, segir að ammóníum-nít­rat, sem olli seinni sprengingunni í Beirút, þarf alltaf ein­hverja tendrun til að verða að sprengju. Efnið var notað á Íslandi á árum áður sem áburður en hann veit ekki til þess að það sé til í geymslu hér­lendis enn.

„Það þarf yfir­leitt ein­hverja tendrun sem kemur því [Ammóníum-nít­rat] af stað. Dína­mít til dæmis eða heima­til­búið sprengju­efni. Brei­vík notaði svipað á sínum tíma í Noregi,“ segir Sigurður.

„Þarna kemur upp eldur. Borgar­stjórinn telur að þarna hafi verið 2750 tonn. Maður veit ekki hvort þetta sé í lokaðri geymslu en ef tendrunin verður við það og gasið kemst ekki út, þá verður sprenging. Svo hafa hugsan­lega verið önnur efni þarna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona gerist,“ segir Sigurður.

Illa geymt ammóníum-nít­rat hefur margoft áður valdið mann­skæðum sprengingum.

Höfnin í Texas gjöreyðilagðist þegar eldur náði að tendra í 2300 tonn af ammónínum-nítrati árið 1947.
Ljósmynd/Wikimedia Commons

Mann­skæðasta slysið átti sér stað í Texas City árið 1947 þegar 2300 tonn af ammóníum-nít­rat sprakk við höfnina og varð 581 að bana.

Um er að ræða mannskæðasta slys í sögu Bandaríkjanna en eldur kviknaði í franska flutningaskipinu SS Grandcamp og var ammóníum-nítratið hluti af farmi skipsins.

Þá létust 173 ein­staklingar við höfnina í Tianji­in í Kína árið 2015 eftir að sam­bæri­legt efni var geymt við ó­við­unandi að­stæður í vöru­geymslu.

Fleiri hundruð einstaklingar létu lífið þegar kviknaði í illa geymdu sprengiefni við höfnina í Tianjiin árið 2015.
Ljósmynd/AFP

Íslendingar löngu hættir að nota efnið

Spurður um hvort ammóníum-nít­rat sé til í geymslum hér­lendis, segir Sigurður Ís­lendinga löngu hætta að nota efnið.

„Ekki svo ég viti. Við erum löngu hættir að nota þetta. Áburðurinn Kjarni í gamla daga var notaður sem sprengju­efni. Þá var sett í hann dína­mít til þess að koma honum af stað. Þetta var notað í námu­vinnslu og þegar það þurfti að sprengja mikið af grjóti niður fyrir vega­gerð, byggingar og annað. Það er löngu hætt.“

Sigurður segir að hér­lendis sé nær alltaf notaður blandaður á­burður núna. „En ég er orðinn svo full­orðinn að ég man eftir þessu þegar ég var í sveit. Kjarni var fram­leiddur í Á­burðar­verk­smiðjunni.“

Sigurður Ásgrímsson, sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar.
Ljósmynd/aðsend

Högg­bylgjan kastar fólki aftur og sogar það svo til­ baka

Sigurður segir að högg­bylgjan við stærri sprenginguna í Beirút hafi verið banvæn í allt að tveggja og hálfs kílómetra radíus. Miklu máli skiptir að fólk nái að leita skjóls áður en höggbylgjan lendir á þeim.

„Högg­bylgjan sem veldur öllu þessu tjóni er alveg gríðar­leg. Það getur bæði valdið lunga­sprengingu og dauða ef þú ert of ná­lægt. Þrýstingurinn frá högg­bylgjunni getur farið upp í tvö til þrjú hundruð kíló bar [mælieining fyrir þrýsting]. Það er marg­faldur loft­þrýstingur. Þetta gerist þannig við sprenginguna rís þrýstingurinn of­skap­lega hratt, nær gríðar­legum hraða og getur náð í allt að 340 metrum á sekúndu. Svo kemur sog-fasinn á eftir,“ segir Sigurður.

Þetta gerist því sprengingin ríður öllu lofti í burtu og það sem heldur á móti er and­rúms­loft. „Þegar fyrsta bylgjan er farin hjá þá fellur þrýstingurinn niður fyrir venju­legan loft­þrýsting og þá sogast hlutirnir til­baka,“ segir Sigurður. Loft­þrýstingur er mældur í PSI (pund-gildi á hvern fer­metra tommu) og segir Sigurður að svo lítið sem 40 PSI gets verið ban­vænt.

„Það er hægt á sjá á mynd­böndum frá svæðinu hvernig högg­bylgjan kemur og þá er hægt að sjá hvernig loftið þéttist og verður að raka­skýi. Þetta er það sama og myndast stundum á flug­vélarvæng. Það verður mikill þrýstingur og þetta er mjög al­var­legt.“

Mikill þrýstingur myndast við sprenginguna og getur vindhraði náð allt að 340 metrum á sekúndu.
Ljósmynd/AFP

Hægt er að sjá rakaskýið myndast frá sjö mismunandi sjónarhornum í myndbandinu hér að neðan.

Skömmu eftir sprenginguna voru sjúkrahús yfirfull og þurfti að vísa fólki frá.

Mikið björgunarstarf hefur staðið yfir í Beirút í dag.
Ljósmynd/AFP
Vísa þurfti fólki frá sjúkrahúsum í Beirút
Ljósmynd/AFP

Alþjóðlegar reglur til um geymslu ammóníum-nítrat

Eldsupptök í geymslunni við höfnina er enn óljós en efnið hefur verið geymt þar við óviðunandi aðstæður í rúm sex ár. Samkvæmt fjölmiðlum í Líbanon hafði tollgæslan við höfnina sent sex minnisblöð til yfirvalda um að efnið væri hættulegt og það væri nauðsynlegt að fjarlægja það.

Spurður um hvort það séu ekki al­þjóð­legar reglur um hvernig á að geyma ammóníum-nít­rat, segir Sigurður svo vera.

„Jú, það eru reglur um það og hvernig á að eyða þessu. Það er nú liðin tíð en maður lenti í því á árum áður að eyða svona. Þetta náttúru­lega leysist upp í vatni en það er líka hægt að brenna þetta en það er mjög erfitt. Ég veit ekki af hverju það er svona gríðar­lega mikið magn þarna.“

Engir Íslendingar hafa óskað eftir aðstoð eða haft samband við borgaraþjónustuna

Sveinn H. Guð­mars­son, upp­lýsinga­full­trúi utan­ríkis­ráðu­neytisins, segir að enginn hefur haft sam­band við borgara­þjónustu utan­ríkis­ráðu­neytisins í kjöl­far sprengingarinnar.

„Það hefur enginn leitað til borgara­þjónustunnar. Það voru náttúru­lega margir skráðir í gagna­grunninn hjá okkur í tengslum við CO­VID-19 og það er enginn stað­settur í Beirút,“ segir Sveinn.

Hann segir að fyrir CO­VID-19 voru oft Íslendingar í Beirút. „Síðan hafa Ís­lendingar búið þarna og starfað líka,“ segir Sveinn.

Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis­ráð­herra, tísti í morgun stuðnings­yfir­lýsingu til íbúa Beirút þar sem hann bauð jafn­framt fram að­stoð frá Ís­landi.

Guðlaugur segir í samtali við Fréttablaðið að slíkur stuðningur yrði veittur í gegnum alþjóðlegar samstarfsstofnanir líkt og Sameinuðu þjóðirnar.

„Það er of snemmt að fara í út­færslu á því núna en það verður væntan­lega gert í gegnum sam­starfs­stofnanir sem við eigum aðild að. Það er verið að skoða núna hvar fjár­þörfin er mest ,“ segir Guð­laugur sem telur jafn­framt lík­legt að að­stoð verði veitt.

„Aðal­at­riðið er að hver sem niður­staðan verður þá erum við til­búin að leggja okkar að mörkum til stuðnings Líbönsku þjóðinni,“ segir Guð­laugur.

Athugasemdir