Sigurður Ásgrímsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni, segir að ammóníum-nítrat, sem olli seinni sprengingunni í Beirút, þarf alltaf einhverja tendrun til að verða að sprengju. Efnið var notað á Íslandi á árum áður sem áburður en hann veit ekki til þess að það sé til í geymslu hérlendis enn.
„Það þarf yfirleitt einhverja tendrun sem kemur því [Ammóníum-nítrat] af stað. Dínamít til dæmis eða heimatilbúið sprengjuefni. Breivík notaði svipað á sínum tíma í Noregi,“ segir Sigurður.
„Þarna kemur upp eldur. Borgarstjórinn telur að þarna hafi verið 2750 tonn. Maður veit ekki hvort þetta sé í lokaðri geymslu en ef tendrunin verður við það og gasið kemst ekki út, þá verður sprenging. Svo hafa hugsanlega verið önnur efni þarna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona gerist,“ segir Sigurður.
Illa geymt ammóníum-nítrat hefur margoft áður valdið mannskæðum sprengingum.

Mannskæðasta slysið átti sér stað í Texas City árið 1947 þegar 2300 tonn af ammóníum-nítrat sprakk við höfnina og varð 581 að bana.
Um er að ræða mannskæðasta slys í sögu Bandaríkjanna en eldur kviknaði í franska flutningaskipinu SS Grandcamp og var ammóníum-nítratið hluti af farmi skipsins.
Þá létust 173 einstaklingar við höfnina í Tianjiin í Kína árið 2015 eftir að sambærilegt efni var geymt við óviðunandi aðstæður í vörugeymslu.

Íslendingar löngu hættir að nota efnið
Spurður um hvort ammóníum-nítrat sé til í geymslum hérlendis, segir Sigurður Íslendinga löngu hætta að nota efnið.
„Ekki svo ég viti. Við erum löngu hættir að nota þetta. Áburðurinn Kjarni í gamla daga var notaður sem sprengjuefni. Þá var sett í hann dínamít til þess að koma honum af stað. Þetta var notað í námuvinnslu og þegar það þurfti að sprengja mikið af grjóti niður fyrir vegagerð, byggingar og annað. Það er löngu hætt.“
Sigurður segir að hérlendis sé nær alltaf notaður blandaður áburður núna. „En ég er orðinn svo fullorðinn að ég man eftir þessu þegar ég var í sveit. Kjarni var framleiddur í Áburðarverksmiðjunni.“

Höggbylgjan kastar fólki aftur og sogar það svo til baka
Sigurður segir að höggbylgjan við stærri sprenginguna í Beirút hafi verið banvæn í allt að tveggja og hálfs kílómetra radíus. Miklu máli skiptir að fólk nái að leita skjóls áður en höggbylgjan lendir á þeim.
„Höggbylgjan sem veldur öllu þessu tjóni er alveg gríðarleg. Það getur bæði valdið lungasprengingu og dauða ef þú ert of nálægt. Þrýstingurinn frá höggbylgjunni getur farið upp í tvö til þrjú hundruð kíló bar [mælieining fyrir þrýsting]. Það er margfaldur loftþrýstingur. Þetta gerist þannig við sprenginguna rís þrýstingurinn ofskaplega hratt, nær gríðarlegum hraða og getur náð í allt að 340 metrum á sekúndu. Svo kemur sog-fasinn á eftir,“ segir Sigurður.
Þetta gerist því sprengingin ríður öllu lofti í burtu og það sem heldur á móti er andrúmsloft. „Þegar fyrsta bylgjan er farin hjá þá fellur þrýstingurinn niður fyrir venjulegan loftþrýsting og þá sogast hlutirnir tilbaka,“ segir Sigurður. Loftþrýstingur er mældur í PSI (pund-gildi á hvern fermetra tommu) og segir Sigurður að svo lítið sem 40 PSI gets verið banvænt.
„Það er hægt á sjá á myndböndum frá svæðinu hvernig höggbylgjan kemur og þá er hægt að sjá hvernig loftið þéttist og verður að rakaskýi. Þetta er það sama og myndast stundum á flugvélarvæng. Það verður mikill þrýstingur og þetta er mjög alvarlegt.“

Hægt er að sjá rakaskýið myndast frá sjö mismunandi sjónarhornum í myndbandinu hér að neðan.
Mushroom cloud over #Beirut: Shocking video of the massive explosion from 7 different angles...#Lebanon pic.twitter.com/QLsHlmwafy
— CGTN America (@cgtnamerica) August 5, 2020
Skömmu eftir sprenginguna voru sjúkrahús yfirfull og þurfti að vísa fólki frá.


Alþjóðlegar reglur til um geymslu ammóníum-nítrat
Eldsupptök í geymslunni við höfnina er enn óljós en efnið hefur verið geymt þar við óviðunandi aðstæður í rúm sex ár. Samkvæmt fjölmiðlum í Líbanon hafði tollgæslan við höfnina sent sex minnisblöð til yfirvalda um að efnið væri hættulegt og það væri nauðsynlegt að fjarlægja það.
Spurður um hvort það séu ekki alþjóðlegar reglur um hvernig á að geyma ammóníum-nítrat, segir Sigurður svo vera.
„Jú, það eru reglur um það og hvernig á að eyða þessu. Það er nú liðin tíð en maður lenti í því á árum áður að eyða svona. Þetta náttúrulega leysist upp í vatni en það er líka hægt að brenna þetta en það er mjög erfitt. Ég veit ekki af hverju það er svona gríðarlega mikið magn þarna.“
Engir Íslendingar hafa óskað eftir aðstoð eða haft samband við borgaraþjónustuna
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að enginn hefur haft samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í kjölfar sprengingarinnar.
„Það hefur enginn leitað til borgaraþjónustunnar. Það voru náttúrulega margir skráðir í gagnagrunninn hjá okkur í tengslum við COVID-19 og það er enginn staðsettur í Beirút,“ segir Sveinn.
Hann segir að fyrir COVID-19 voru oft Íslendingar í Beirút. „Síðan hafa Íslendingar búið þarna og starfað líka,“ segir Sveinn.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, tísti í morgun stuðningsyfirlýsingu til íbúa Beirút þar sem hann bauð jafnframt fram aðstoð frá Íslandi.
Deeply saddened by the casualties and destruction caused by the #BeirutExplosions. The footage from #Beirut is truly shocking. #Iceland is ready to provide support to the emergency response. My thoughts are with those suffering.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) August 4, 2020
Guðlaugur segir í samtali við Fréttablaðið að slíkur stuðningur yrði veittur í gegnum alþjóðlegar samstarfsstofnanir líkt og Sameinuðu þjóðirnar.
„Það er of snemmt að fara í útfærslu á því núna en það verður væntanlega gert í gegnum samstarfsstofnanir sem við eigum aðild að. Það er verið að skoða núna hvar fjárþörfin er mest ,“ segir Guðlaugur sem telur jafnframt líklegt að aðstoð verði veitt.
„Aðalatriðið er að hver sem niðurstaðan verður þá erum við tilbúin að leggja okkar að mörkum til stuðnings Líbönsku þjóðinni,“ segir Guðlaugur.