Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Föstudagur 24. desember 2021
05.00 GMT

Hin 92 ára Sigurlaug Sigurjónsdóttir hefur búið á Skeggjagötu í fjörutíu ár og hefur nær allan þann tíma haft leigjendur í kjallaranum hjá sér. Á þessum tíma hefur hún kynnst fjölskrúðugu mannlífi; einbúum, erlendum fjölskyldum og einstaka glæpamanni.

Við Fréttablaðsfólkið erum ekki fyrr sest við eldhúsborðið en Sigurlaug snarar fram kökum og kaffi. Amma Sjöllý, eins og hún er gjarnan kölluð, segir okkur að hún hafi flutt í Norðurmýrina árið 1981 með eiginmanni sínum heitnum. „Þá var ríkið hérna á móti og Þórður sagði að ég væri að spara sér sporið,“ segir Sigurlaug og hlær meðan hún hellir í kaffibollana hjá gestum sínum.

Tveir afkomendur Sigurlaugar eru í heimsókn, Ásdís dóttir hennar og sonardóttirin. „Hún stendur alltaf og þjónar til borðs. Maður þarf að biðja hana oft um að fá sér sæti,“ segir Steinunn þegar undirrituð óttast að hún sitji í sæti Sjöllýar.

Þannig að þú ert ekki með fast sæti?

„Nei,“ svarar Sigurlaug. „Ég er aldrei með fast sæti. Ég velt um.“

Sigurlaug hefur alltaf verið tilbúin til að leigja hverjum sem er út herbergin. Hún fær stundum kvíðakast við að velja á milli mögulegra leigjenda.
Fréttablaðið/Valli

Í viðbyggingu við hænsnakofa

Amma Sjöllý er smávaxin kona með stutt krullað hár. Hún er skriðin yfir á tíræðisaldurinn, býr ein og sér algjörlega um sig sjálf. Hún syngur enn – „sópran í Ekkó kórnum,“ segir hún stolt.

Sigurlaug, sem er fædd 1929, er upphaflega úr Skerjafirðinum en flutti níu ára í Árbæ sem var þá bara sveit. Þau voru ellefu systkinin og Sigurlaug elst. Fjölskyldan bjó í íbúð sem var áföst hænsnakofa en honum var fljótlega breytt í verksmiðju fyrir gerviblóm. Pabbi hennar, Sigurjón Jónsson, var mikill listamaður og garðyrkjumaður.

„Hann gerði aðallega kalablóm sem voru notuð í kransa. Svo gerði hann rósir og nellikur sem voru seldar í blómabúð í Austurstræti.“

Starfsemin var arðbær og nýtti pabbi hennar ágóðann í að fylla húsið af skepnum. Þegar mest var voru fjórtán kýr með kálfum, hestur og fullt af hænum.

Í húsinu var ekkert vatn eða rafmagn. Þá var rigningarvatni safnað og vatn sótt í Elliðaárnar. Stundum fylgdi lax með í fötunni og þá földu bræður Sigurlaugar þá undir ullarpeysunni og hlupu heim.

„Okkur þótti voða gaman að ögra vaktmanninum við árnar.“

Árið1941 heimsótti Winston Churchill herskálahverfið í Ártúni, Camp Ártún sem hét Alabaster Camp og að lokum Camp Pershing. Sigurlaug var 12 ára og bjó skammt frá kampinum.

Á uppvaxtarárum Sigurlaugar voru átta herskálahverfi í Elliðaárdalnum og eins og við er að búast höfðu kamparnir mikil áhrif á líf fólksins á svæðinu. Öryggisgæsla var svo ströng að jafnvel börnin þurftu vegabréf til að komast heim til sín. Bræður hennar lærðu ensku í hernáminu í spjalli við Breta og Kana.

Fljótlega eftir að Sigurlaug var farin að vinna flutti hún í miðbæinn. Hún kynntist Þórði á balli í Breiðfirðingabúð og leist ekkert á hann í fyrstu.

„Ég kærði mig ekkert um þennan mann sem rakti garnirnar úr öllum sem hann talaði við.“ Þórður gaf henni undir fótinn og að lokum féll Sigurlaug fyrir honum og þau eignuðust son.


„Ég hef alltaf farið svona í gegnum lífið. Það var nú aldrei erfitt.“


Elsti sonurinn á vöggustofu

Ásdís skýtur inn í að móðir hennar hafi verið einstæð í fyrstu þar sem Þórður reyndist vera giftur maður. Sigurlaug jánkar. „Það var ást í meinum.“

Var erfitt að vera einstæð móðir fyrstu árin?

„Ég hef alltaf farið svona í gegnum lífið. Það var nú aldrei erfitt,“ segir Sigurlaug og bætir þá Ásdís við: „En þetta var ekki alltaf auðvelt, var það nokkuð?“ Hún útskýrir að elsti sonurinn hafi dvalið á vöggustofu frá nokkurra vikna aldri.

„Jú, það var erfitt,“ viðurkennir Sigurlaug. „Forstöðukonan var góð við mig í fyrstu og leyfði mér að koma þrisvar á dag til að gefa brjóst.“ Einn daginn breyttist allt viðmótið. „Allt í einu mátti ég ekki koma. Átti bara að horfa á barnið mitt í gegnum gler. Það var hræðilegt.“ Tók hún þá son sinn af vöggustofunni og var með hann heima hjá sér og naut liðsinnis foreldra sinna.

Eftir að annað barnið fæddist ákváðu þau Þórður að gifta sig og þegar börnin voru orðin fjögur og þau elstu farin að heiman flutti fjölskyldan á Skeggjagötu og fór að leigja út herbergin.

Frakkar, Danir og Kínverjar

Fyrsti leigjandinn var ung frönsk stúlka sem vann á Lækjarbrekku. „Ég held að sú franska hafi verið fyrst. Hún bakaði í herberginu sínu.“ Lokkandi ilmurinn fyllti allt húsið þegar sú franska bakaði tertur og kökur.

„Ég var með danska konu, franska konu, kínverskan leigjanda og síðar fjölskyldu hans.“

Hún segist muna sérstaklega vel eftir Wang-fjölskyldunni sem bjó saman í litlu herbergi. „Hjónin voru með eitt barn og hann var að meira eða minna leyti uppi hjá mér. Hann vildi bara alltaf skoða bækurnar,“ segir Sigurlaug. Hún skildi alltaf eftir dyrnar ólæstar svo sonurinn, Steinar Wang, gæti kíkt í heimsókn.

Fréttablaðið hafði uppi á Steinari sem minnist áranna á Skeggjagötu með hlýhug. „Mér verður oft hugsað til Sigurlaugar, í hvert skipti sem ég keyri fram hjá húsinu,“ segir Steinar. „Við vorum leigjendur hjá henni í nokkur ár. Ég fékk oft að koma upp til hennar og leika þar.“


„Ég leit út eins og snarbrjáluð kona og honum brá svo að hann baðst afsökunar og lét sig hverfa.“


Söfnunarsjúkur grasafræðingur

Nú biður ljósmyndarinn ömmu Sjöllý um að stilla sér upp í stofunni. Við röltum saman fram og Ásdís kíkir út um gluggann á garðinn. „Manstu eftir grasafræðingnum sem setti upp tjaldið í garðinum til að þurrka mosa?“

„Einmitt, grasafræðingurinn,“ segir Sigurlaug hugsi meðan hún lagar hárið. Þannig víkur sögunni að leigjanda sem safnaði alls kyns grösum og plöntum og umbreytti kjallaranum í kaotískan grasagarð.

„Hann var alltaf að gera einhver smyrsl og var hálfger safnari. Hann hafði átt heima í einbýlishúsi áður og ég held að hann hafi hreinlega tekið með sér alla búslóðina í litla herbergið.“

Sigurlaug þagnar andartak. „Var hann ekki á undan Svíanum?“ spyr hún og Ásdís verður hugsi. „Þessum sem var svo skotinn í þér,“ segir Sigurlaug og Ásdís hlær.

„Hann var alltaf að kíkja upp í heimsókn í leit að Ásdísi,“ útskýrir Sigurlaug. Oftar en ekki sneri hann vonsvikinn við. „Einn daginn gekk hann inn meðan ég var fárveik uppi í rúmi. Ég leit út eins og snarbrjáluð kona og honum brá svo að hann baðst afsökunar og lét sig hverfa.“

Heilbrigðiseftirlitið kallað til

Sigurlaug hefur alltaf verið tilbúin til að leigja hverjum sem er út herbergin, hvort sem leigjandinn er að koma úr afvötnun eða afplánun og ökklaband hefur aldrei verið fyrirstaða.

„Mamma er mjög góð og hefur haft hér alla mannflóruna og allra þjóða kvikindi,“ segir Ásdís sem hefði kannski viljað ítarlegra umsóknarferli fyrir suma leigjendur eins og þann næsta sem kemur við sögu.

Einn daginn kom grannvaxinn maður með bleikt hár í heimsókn og spurðist fyrir um herbergið og þótti Sigurlaugu ekkert eðlilegra en að leigja honum það. „Hann var bara þreyttur og miðaldra maður og ég vorkenndi honum svolítið. Svo sáu dætur mínar manninn og spurðu mig hvað í ósköpunum ég hefði verið að hugsa,“ segir Sigurlaug.

„Hann var ansi litríkur en var alltaf með einhverja dularfulla skjalatösku með sér,“ botnar Ásdís og heldur áfram: „Einn daginn fara mamma og pabbi til Spánar og þá kemur í ljós að þetta er maður sem á við mikinn áfengis- og fíkniefnavanda stríða og fékk víst eitthvað í magann.“

„Einmitt, hann braut klósettsetuna,“ minnist Sigurlaug. „En við skulum ekki fara út í smáatriði. Orðum það bara þannig að það þurfti að rífa allt upp eftir þetta.“

„Þið þurftuð að flytja hann út, var það ekki?“ spyr Ásdís og Sigurlaug heldur áfram: „Já, eða öllu heldur heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar.“

„Einmitt,“ segir Ásdís og gapir. „Ég man að ég mætti þangað og sá heilbrigðiseftirlitið og vinnumenn frá Reykjavíkurborg að girða fyrir húsið og bera rúmið hans út í vörubíl í stóran sandbing og moka yfir. Þeir rifu upp teppin og förguðu öllu innbúinu.“

Þegar Þórður og Sigurlaug sneru aftur frá Spáni var búið að hreinsa út alla neðri hæðina. Sigurlaug fór í kjallarann til að þvo þvott og sá þar bleikhærða manninn sitjandi á gólfinu í tómu herberginu. „Þar sat hann með skjalatöskuna opna, fulla af pillum.“

Sigurlaug segist almennt hafa verið ánægð með leigjendur sína.
Fréttablaðið/Valli

Karlar í kjólum

Sigurlaug hefur leigt herbergin fólki af öllum kynjum og kynhneigðum.

„Hér bjó til dæmis hávaxin og hugguleg kona í miðju kynleiðréttingarferli, svo var einn samkynhneigður ungur maður og svo strákur sem klæddi sig stundum í kjóla um helgar,“ segir Sigurlaug.

Karlmenn sem klæðast kjólum hafa ávallt loðað við líf hennar, fyrst faðir hennar sem klæddist kjól á sunnudögum og saumaði út, og síðar einn leigjenda hennar sem klæddi sig reglulega upp í kvenmannsföt.

„Ég man þegar ég átti einu sinni leið niður í kjallara hjá mömmu seint um kvöld og þessi rósótta mikla vera kom aðvífandi eftir kjallaraganginum í myrkrinu,“ verður Ásdísi að orði.

Skammaði albanskan mafíósa

Hefurðu almennt verið lánsöm með leigjendur?

„Já, í flestum tilfellum en stundum var maður með leigjendur sem hreinsuðu ekki eftir sig,“ segir Sigurlaug og setur þá Ásdís upp svip. „Þú hefur nú haft verri leigjendur en það. Hvað með manninn sem var að selja kókaín?“

„Já, alveg rétt,“ segir Sigurlaug og kippir sé lítið upp við spurninguna en blaðamaður rekur upp stór augu.

Þá hafði Sigurlaug leigt manni frá Albaníu neðri hæðina en ekki leið á löngu þar til kjallarinn fylltist af félögum hans sem voru farnir að aðhafast ýmislegt. Af lýsingum mæðgnanna að dæma dregur blaðamaður þá ályktun að þarna hafi hreinlega verið um albönsku mafíuna að ræða.

„Þeir voru búnir að yfirtaka þvottahúsið. Þetta var orðinn hálfgerður samkomustaður,“ segir Sigurlaug sem áréttar að hún viti ekkert um það hvort þeir hafi verið að stunda eitthvað ólöglegt.

„Þeir voru nú samt að gera ýmislegt,“ segir Ásdís. „Ja, ég veit ekkert um það,“ svarar Sigurlaug og bætir svo við: „En jú, sennilega voru þeir að selja kókaín.“

Helst fannst Sigurlaugu óþægilegt þegar Albanarnir voru farnir að leigja herbergið áfram án þess að ræða við hana. Þá bjó dótturdóttir hennar í öðru herbergjanna.

„Þá voru oft menn á vappi um húsið, að koma inn og út um kjallarann og voru að kíkja inn um gluggana. Ég man að ég sá tvo þeirra banka á gluggann í bakgarðinum og þá kallaði ég eitthvað í áttina til þeirra og þeir þutu eins og byssubrenndir í burtu og leigjandinn minn hljóp út, skellti á eftir sér og keyrði á eftir þeim.“

Mennirnir voru oft í gulum vestum, líkum þeim sem borgarstarfsmenn klæðast, þó að þeir væru ekki að vinna og þaðan af síður á vegum borgarinnar. „Ég held að þeir hafi gert þetta svo enginn sæi neitt athugavert við ferðir þeirra inn og út úr húsinu.“

Nágrannarnir í Norðurmýrinni fylgdust agndofa með þegar Sigurlaug grútskammaði mann í bræðiskasti sem hafði hótað að drepa leigjandann hennar.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Ásdís minnist þess þegar einn þeirra reyndi að brjótast inn um gluggann með heygaffli. Sigurlaug kinkar kolli. „Þeir slógust og einn var að reyna að brjótast inn með gaffli. Ég fór þá út og skammaði hann.“

Var maðurinn í miklu uppnámi og lýsti því yfir að hann ætlaði að drepa leigjanda Sjöllýjar. Amma Sjöllý kippti sér lítið upp við það og fylgdust nágrannarnir agndofa með þegar hún grútskammaði froðufellandi manninn sem stóð fyrir neðan tröppurnar með heygaffalinn í hendi.

Henni þótti helst leitt að sjá vináttuna milli mannanna dvína. „Þeir höfðu setið úti í garði deginum áður og legið á teppi.“

Voru þeir bara með pikknikk daginn áður?

„Ekki pikknikk, það var bara gott veður og þeir sátu á teppinu í sólinni.“

„Ég get alltaf hitt fólk.“
Fréttablaðið/Valli

Gott að hitta fólk

Þrátt fyrir hina litríku flóru sem í kjallaranum hefur búið hefur Sjöllý aldrei þurft að kalla á lögreglu enda flestir leigjenda hennar verið frábærir. Hún segist hins vegar oft finna fyrir kvíða þegar hún þarf að velja nýtt fólk í herbergin.

„Mömmu finnst stundum erfitt að segja nei,“ segir Ásdís og Sigurlaug jánkar. „Já, en það var aldrei erfitt þegar ég var búin að segja já.“

Þegar amma Sjöllý lítur yfir árin og leigjendurna fjörutíu segist hún alltaf hafa notið þess að kynnast nýju fólki. „Ég get alltaf hitt fólk.“

Athugasemdir