Amish-fólk hefur nú bæst við mótmælendahópinn í Minneapolis vegna dauða George Floyd. Greint er frá þessu á vef fréttaveitunnar RT.

Amish-fólk í Bandaríkjunum er vanalega nokkuð einangrað frá umheiminum, stundar landbúnað og lifir einföldu íhaldsömu lífi sem einkennist af sparsemi, iðjusemi og guðsótta.

Fregnir af mótmælunum bárust greinilega til Amish-samfélagsins og ákvað hópurinn að mæta og sýna samstöðu.

Hópurinn virtist hafa ferðast til Minneapolis á hestakerru og var með heimagerð skilti og söng sálma fyrir aðra mótmælendur í borginni.

Mótmælin hófst í kjölfar atviks síðastliðinn mánudag, þegar lögregluþjónn kraup á hálsi George Floyd þar til hann kafnaði og lést. Lögregluþjónninn hefur verið handtekinn og ákærður fyrir morð og var þremur lögregluþjónum sagt upp störfum í tengslum við málið.

Mótmæli fara nú fram í tólf borgum í Bandaríkjunum og krefjast mótmælendur bættra vinnu­bragða meðal lög­reglu­manna og breyttrar stöðu svartra í Banda­ríkjunum.