Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest úrskurð Landlæknis um að veita lækni áminningu vegna tveggja mála.

Annars vegar vegna kvörtunar sem hann fékk vegna meintrar vanrækslu, mistaka og ótilhlýðilegrar framkomu í garð skjólstæðings. Og hins vegar í máli þar sem skjólstæðingur svipti sig lífi skömmu eftir að læknirinn útskrifaði hann.

Hafi gert lítið úr henni og sjúkdómnum

Í fyrra málinu kvartaði skjólstæðingurinn yfir meintum mistökum við lyfjagjöf, sem og framkomu læknisins. Hún sagði hann hafa talað niður til sín og sýnt henni og sjúkdómi hennar vanvirðingu. Auk þess hafi hann gert lítið úr sjálfsvígstilraunum hennar. Þar að auki á hann að hafa talað niður þær meðferðir sem væru í boði fyrir hana.

Þetta á að hafa valdið sjúklingnum miklu uppnámi sem upplifði aukinn kvíða og þunglyndi. Þá sagði hún sig hafa verið „einkar berskjaldaða á þessum tímapunkti eftir sjálfsvígstilraun.“ Fram kemur að læknirinn taldi sig ekki hafa sýnt henni óvirðingu.

Hefði verið hægt að koma í veg fyrir ótímabært dauðsfall

Varðandi síðara málið segir í úrskurðinum að embætti landlæknis þyki að verklagi um sjálfsvígshættu hafi ekki verið fylgt nægilega vel. Skjólstæðingur mannsins hafi verið útskrifaður án þess að fyrir lægi fullnægjandi mat á sjálfsvígshættu, en líkt og áður segir framdi hann sjálfsvíg skömmu eftir að hafa verið útskrifaður.

Með því að greina sjúklinginn ekki á fullnægjandi og faglegan hátt, og með því að hefja faglega meðferð, eða tryggja eftirfylgd hefði, að mati embættisins, verið hægt að koma í veg fyrir ótímabært dauðsfall.

Heilbrigðisráðuneytið telur að læknirinn hafi vanrækt starfsskyldur sínar sem ábyrgur læknir og brotið í bága við réttindi sjúklinga. Þar af leiðandi var úrskurður embættis landlæknis staðfestur. Í úrskurðinum kemur ekki fram hvar umræddur læknir hefur starfað.

Glímir þú við sjálfs­víg­hugsanir ráð­leggjum við þér að ræða málin við sér­þjálfaða ráð­gjafa Rauða krossins í hjálpar­símanum, 1717, eða á net­spjalli Rauða krossins. Einnig reka Píeta samtökin gjaldfrjálsa þjónustu fyrir fólk í sjálfsvígshættu, sem glímir við sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra. Píetasíminn 552 2218 er opinn allan sólarhringinn. Í neyðartilvikum skal ávalt hringja í 112.