Stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson var áminntur af dómstóli Skáksambands Íslands, en úrskurður þess efnis var birtur á vef sambandsins í gær. Málið snýr að uppákomu sem átti sér stað á skákmóti á vegum Taflfélags Reykjavíkur í sumar og eftirmálum þess, en fyrir dómstólnum lá krafa um að Héðinn yrði dæmdur í allt að þriggja mánaða keppnisbann vegna málsins.

Tilvikið sem um ræðir átti sér stað á fyrsta skákmóti Brim-mótaraðarinnar sem fór fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur í júní í sumar. Í óumdeildri úrslitaskák mótsins mættust landsliðsmennirnir Héðinn og Guðmundur Kjartansson, alþjóðlegur meistari.

Héðinn og Guðmundur hafa marga hildi háð og skemmst er að minnast úrslitaskákar Íslandsmótsins árið 2017 þar sem Guðmundur hafði sigur eftir mikla baráttu og skaust fram úr Héðni í lokaumferðinni. Þar var bardaginn útkljáður á borðinu, en á umræddu Brim-móti var engum leik leikið.

Samkvæmt gögnum málsins mætti Héðinn nokkrum mínútum of seint og hafði skákklukkan þá verið gangsett. Hann settist við borðið og togaði til sín skákborðið en Guðmundur togaði á móti. Þar sem skákmennirnir gátu ekki komið sér saman um hvar skákborðið væri nákvæmlega á miðju borðsins þá kölluðu þeir á skákstjóra til að leysa málið. Þrátt fyrir mælingar skákstjóra var Héðinn ósáttur og eftir að nokkur þung orð voru látin falla yfirgaf hann skáksalinn í fússi.

Eftir nokkra stund sneri hann aftur að skákborðinu og krafðist þess að skákin myndi hefjast aftur og skákklukkan yrði endurræst. Það féllst skákstjóri ekki á og yfirgaf þá Héðinn skákstað. Skákin var dæmd töpuð á Héðin og síðar komst skákstjóri að þeirri niðurstöðu að vísa honum af mótinu fyrir óíþróttamannslega hegðun.

Rimmunni var þó hvergi nærri lokið. Eftir fjaðrafokið ákvað Guðmundur að ganga heim til sín í Ártúnsholtið. Hann tók lengri leið í gegnum Elliðaárdalinn og gekk þar beint í flasið á Héðni.

Í gögnum dómstólsins eru keppendur sammála um að það hafi verið helber tilviljun enda hafi þeir að minnsta kosti tvisvar áður mæst á göngu um dalinn.

Þarna voru hins vegar tilfinningarnar í botni og heldur Guðmundur því fram að Héðinn hafi ausið yfir sig svívirðingum, meðal annars um að hann væri svindlari, og að auki rifið í hann. Hafi Guðmundur þá ákveðið að flýja af vettvangi en Héðinn þegar hafið eftirför.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins heldur Héðinn því fram að upplifun Guðmundar af fundi þeirra sé bjöguð og röng. Þeir hafi vissulega haft orðaskipti en hegðun Héðins hafi ekki verið á nokkurn hátt ógnandi.

Það liggur þó fyrir að Guðmundur stoppaði vegfarendur og fékk að hringja hjá þeim í lögreglu.

Dómstóll Skáksambandsins komst að þeirri niðurstöðu að um tvö aðskilin atvik væri að ræða. Ákvað dómstóllinn að áminna Héðin fyrir hegðun sína í skáksal en fundurinn í Elliðaárdal hafi verið fyrir utan lögsögu dómstólsins.