Það er auðvitað eðlilegt að Alþingi gæti að jöfnu kynjahlutfalli í sinni nefndaskipan,“ segir Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.

Ekki vildi betur til en svo, þegar kosið var í fastanefndir þingsins á þriðjudag, að í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sitja átta konur og einn karlmaður. Í utanríkismálanefnd sitja sjö karlar og tvær konur.

Jafnréttisstofa telur þetta ámælisverð vinnubrögð hjá löggjafanum en á ekki von á að embættið muni bregðast formlega við.

„Þessi lög heyra ekki undir þau lög sem Jafnréttisstofa hefur eftirlit með, en við hvetjum þingið til að vanda til verka í þessum efnum sem öðrum,“ segir Katrín Björg og vísar til nýs ákvæðis í þingsköpum um að gæta skuli að kynjahlutföllum í fastanefndum þingsins.

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sameiginlegr úrlausnarefni

„Ég beitti mér fyrir því að þetta nýja ákvæði yrði sett í þingsköp í tengslum við endurskoðun Jafnréttislaga,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem fer með málaflokk jafnréttismála.

„Við forseti Alþingis höfum rætt þetta og hann mun vekja athygli á þessu við þingflokksformenn og væntanlega munum við nálgast þetta sem sameiginlegt úrlausnarefni,“ segir Katrín.

Hið nýja ákvæði þingskapa kveður á um að hlutfall kvenna og karla í fastanefndum sé eins jafnt og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll innan þingflokka bjóða. Af þessu leiðir að það skrifast einkum á stærstu þingflokkana, Framsókn og Sjálfstæðisflokk, að huga að kynjahlutföllunum.

Sjálfstæðisflokkurinn á tvo fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, konurnar Hildi Sverrisdóttur og Berglindi Ósk Guðmundsdóttur. Framsókn á einnig tvo fulltrúa í nefndinni, þær Höllu Signýju Kristjánsdóttur og Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur.

Fjórir karlar og ein kona

Í utanríkismálanefnd hefur stjórnarmeirihlutinn einnig fimm menn, fjóra karla og eina konu. Sjálfstæðisflokkurinn er með þrjá fulltrúa, þar á meðal er eina kona meirihlutans í nefndinni, Diljá Mist Einarsdóttir.

„Við eigum eftir að setjast niður og fara yfir þetta,“ segir Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hún segir val flokka á fulltrúum í nefndir flókið samspil. Tekið sé mið af sérhæfingu og áhugasviði hvers og eins þingmanns en kynjasjónarmið skipti einnig máli.

14. grein þingskapalaga

Hver alþingismaður á rétt á sæti í að minnsta kosti einni nefnd en enginn má þó eiga sæti í fleiri en tveimur fastanefndum. Taka skal sérstakt tillit til óska þingflokka sem eiga ekki rétt á sæti í öllum fastanefndum. Enn fremur skal þess gætt að hlutfall kvenna og karla sé eins jafnt og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll innan þingflokka bjóða.