Mikið hefur verið rætt um áramótaskaupið og að aukaleikarar sem komu að því fengu lítið greitt fyrir vinnu sína eða jafnvel greitt með inneignarnótum í Bónus. Þá fengu söngvarar sem fram komu í atriði um konu sem gleymdi að koma með fjölnota poka í Bónus einungis 5000 krónur greiddar fyrir þátttöku sýna.

Samkvæmt kjarasamningi FÍH við Ríkisútvarpið hefði hver og einn þeirra átt að fá 50 þúsund krónur greiddar.

Hallveig Rúnarsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna og Gunnar Hrafnsson, formaður félags íslenskra hljómlistarmanna mættu í fréttavaktina þar sem þau ræddu málið

Mikið nám og vinna að baki

„Því miður hefur þetta verið svolítið gegnumgangandi í gegnum í tíðina að vinna listamanna er lítils metin og það er bara litið þannig á að fólk sé að sinna áhugamáli þegar það er í vinnunni,“ segir Hallveig sem telur fólk oft ekki átta sig á þeirri vinnu sem fer í framlagið.

„Fólk áttar sig oft ekki á því að gríðarlega mikið nám er oft að baki og gríðarlega mikil vinna sem fólk er búið að vera að leggja af hendi síðan af barnsaldri,“ segir hún.

Sönghópurinn Kyrja sá um að syngja nýja útgáfu af laginu "Brennið þið vitar".
Mynd/RÚV

Það var sönghópurinn Kyrja sem fram kom í atriðinu og telur Hallveig það ámælisvert að hópurinn hafi fengið greitt sem heild en ekki hver og einn söngvari.

„Við sjáum með þetta tiltekna mál þar sem horft er á hóp af tónlistarmönnum þannig að nóg sé að greiða bara hópnum eftir þessum kjarasamningum sem áttu að vera þarna í gildi þegar það er augljóst að það sama væri ekki gert ef það væru þarna tíu rafvirkjar sem kæmu allir frá sama fyrirtækinu og væru kallaðir út í tvö mismunandi útköll. Það kæmi held ég einhver svipur á rafvirkjana ef þeim væru boðnar fimm þúsund krónur fyrir þessi tvö útköll,“ segir Hallvegi.

„Þetta er gigg vinna sem þýðir að þú ert kannski að fá tvö þrjú verkefni á viku og restina af tímanum ertu ekki vinnandi alla klukkutíma, svo þetta snýst um jafnaðarlaun sem við erum að reyna að ná fram,“ tekur Hallveig fram.

20 milljarða fall í tekjum

Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH benti á að gríðarlega mikið fall hefur orðið í tekjum listamanna á síðustu árum.

„Ég get örugglega róað þá sem hafa áhyggjur af því að listamenn séu að fá of mikið“ segir Gunnar og vísar til könnunar þar sem BOM dró saman gögn frá Hagstofunni fyrir árið 2008 til 2020.

„Þar er línulegt fall í heildartekjum listamanna úr 50 milljörðum í 30 milljarða. Sem segir að það er í rauninni fall í tekjum fólks sem starfar við þetta“ segir Gunnar.

Elsti kjarasamningur landsins

Hallur tekur einnig fram að Áramótaskaupið sé framleitt fyrir ríkissjónvarpið en svo virðist sem aðilar séu að nýta sér það að annað framleiðslufyrirtæki sé skráð fyrir gerðinni.

„Þarna liggur alvarlegur ágreiningur. Ég held að samningur RÚV við FÍH sé elsti kjarasamningurinn okkar og einn elsti kjarasamningur í landinu. Ég held að hann sé frá 1932,“ segir Gunnar en tekur fram að samningnum hafi verið sagt upp fyrir nokkrum árum vegna ákvæða sem FíH var ósátt með. „En þangað til annar samningur er gerður þá í raun gilda ákvæði hans,“ segir Hallur.

Ódýrast að spara við listamenn

Gunnar segist skilja að RÚV sér sé skylt að bjóða út tiltekinn hluta efnisins. „Þetta sé hluti af því að gera framleiðsluflóruna heilbrigðari,“ segir hann og bætir við „en gallinn er sá að þetta hefur snúist upp í andhverfu sína þar sem RÚV sér leik á borði með því áætla sömu peninga í skaupið og það hefur gert öll sín fyrri ár,“ segir Gunnar en RÚV hefur framleitt skaupið síðan 1962.

„Það leiðir af sjálfu sér að sumir kostnaðarliðir verða dýrari og hvar geturðu þá sparað. En þú getur sparað þar sem fyrirstaðan er minnst en það er einmitt hjá listafólki,“ segir Gunnar.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.