Áætla má að tölur um fjölda einstaklinga með Alzheimer sjúkdóminn hér á landi séu mun hærri en tölur hingað til hafa gefið til kynna.

Þetta kom fram í máli Jóns Snædals öldrunarlæknis í þættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi. Á vef Alzheimarsamtakanna, í greiningu Birgis Óla Sigmundssonar heilsuhagfræðings er talið að hámark 3000 manns frá 67 til 80 ára hefðu sjúkdóminn árið 2020. Enginn rannsókn hefur þó verið gerð á Íslandi um útbreiðslu Alzheimer en fólki með sjúkdóminn mun fjölga mikið næstu árin hér á landi, sagði Jón og benti á að fólk lifi lengur og árgangarnir séu stórir í eldri aldurshópunum. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar fyrir árabilið 2013 - 2040 er fjölgun einstaklinga í hópnum 67-80 ára yfir hundrað prósent og nærri 150 prósent í hópnum 80 ára og eldri. Hins vegar er fjölgun 50-67 ára mun minni á þessu árabili eða á milli 23-28 prósent.

Norska rannsóknin

Nýlega rannsókn í Þrændalögum í Noreg um útbreiðslu Alzheimer leiddi í ljós að um 6500 einstaklingar eru taldir vera með sjúkdóminn. Að sögn Jóns er ekki hægt yfirfæra það yfir á Ísland þar sem genamengi þjóðanna sé of ólíkt. „Við höfum þó eftir ýmsum leiðum komist að því að talan er sennilega nokkuð hærri hér á landi en við höldum eða svona 3500 til 4000 Íslendingar.“ Jón segir þó skiljanlegar ástæður geta verið fyrir því að ekki komi allir fram sem eru veikir, fólk geti verið með sjúkdóminn án vitundar neins: „Þetta er sjúkdómur gamals fólks og þeir sem eru komnir á níræðistaldur eru sumir ekkert að hafa áhyggjur af því þótt minnist sé eitthvað að dofna.“

Nefna ber þó að í fyrrgreindri greiningu Birgis Ólafs telur hann að hlutfall íslensku þjóðarinnar með heilabilun árið 2020, miðað við mannfjöldaspár verði á bilinu 1,2 til 1,8 prósent sem eru þá 6000 einstaklingar að hámarki.

Forvarnir

Varðandi forvarnir er vitað að loftmengun og reykingar hafa áhrif á þróun Alzheimer sjúkdómsins til hins verra en menntun til hins betra en með námi örvar fólk heilann meira sem getur dregið úr líkum á heilabilun sem sjúkdómi, t.d. Alzheimer sem er algengastur heilabilunarsjúkdóma. Nám eykur tengingar á milli taugafruma og það skiptir máli að örva heilann á fjölbreyttan hátt og þarf vart að nefna hreyfingu líka. Jón tók dæmi um leigubílstjóra: „Við skulum bara taka sem dæmi leigubílstjórar í London, áður en GPS kom þá þurftu þeir að rata og þeir höfðu stærri stöðvar í heilanum sem að sáu um ratvísi.“

Lækning ekki á næsta leiti

Fjölmargt annað hefur áhrif á þróun sjúkdómsins, rætt hefur verið um tengsl offitu og Alzheimer en þar eru mjög lítil tengsl þar á milli, sagði Jón. En lækning er þó ekki handan við hornið, eins og Jón orðaði það í þættinum og með því má álykta að fjöldamargir verði með Alheimar af íslensku þjóðinni næsta áratuginn og meir.