Hlutabréf Alvotech fluttust í gær af First North markaði Nasdaq á Íslandi yfir á Aðalmarkaðinn. Höfðu bréfin hækkað um ríflega 20 prósent við lokun.

Það var stjórnarformaður hins nýskráða félags, Róbert Wessman, sem hringdi til lokunar markaðarins.

Í viðtali við Fréttavaktina á Hringbraut í gær sagði Róbert markaðssókn Alvotech ganga vel beggja vegna Atlantsála. Aðspurður sagði hann allt vera á áætlun hjá fyrirtækinu. Þegar upp var lagt 2013 hefði verið ráðgert að koma fyrsta líftæknihliðstæðulyfinu á markað á þessu ári og það hefði gengið eftir. Einnig hefði átt að kosta einum milljarði dala til að komast á þennan stað. Það hefði sömuleiðis gengið eftir.

Í ár hefur Alvotech tryggt mikilvæga fjármögnun, auk þess sem skráningin á markað og flutningurinn á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi auðveldar því aðgengi að fjármagni.

Enn er tap á rekstri Alvotech en áætlað að með aukinni markaðssókn aukist tekjur svo að eftir mitt næsta ár verði hagnaður af rekstrinum.