Gunnlaugur Jónsson íþróttastjóri Gróttu segir hugmyndina að ballinu hafa vaknað í vor þegar góður hópur innan íþróttafélagsins Gróttu var að velta fyrir sér hvernig fjáröflunarviðburð ætti að setja upp.

Hópurinn var stórtækur enda hafði Grótta eins og flest íþróttafélög þurft að fresta mörgum viðburðum á Covid tímanum.

„Í kjölfar Verbúðarþáttanna á Rúv vaknaði sú hugmynd að búa til alvöru ball í íþróttahúsinu og tengja það við stemmninguna í þáttunum. Tónlistin ætti að vera íslensk frá tímanum sem þættirnir gerast eða frá lok áttunda áratugarins til byrjun þess tíunda,“ segir Gunnlaugur.

Spurning hvort það taki ekki einhverjir hið fræga dansspor Jóns Hjaltalín úr Verbúðinni, í kvöld? Mynd/aðsend

„Við ræddum við Gísla Örn, Nínu Dögg, Björn Hlyn og Nönu í Vesturporti og tóku þau mjög vel í þessa hugmynd, þau gáfu okkur grænt ljós að tengjast þáttunum enda öll hliðholl íþróttahreyfingunni. Við ætluðum að setja ballið upp í vor en hurfum frá því enda var viðburðar markaðurinn mettaður og sem betur fer tókum við þá góðu ákvörðun.“


Byrjið partýin snemma


Gunnlaugur segir það mikið fyrirtæki að halda svona stórt ball og aðstandendur séu þakklátir hversu tilbúnir iðkendur, stjórnarmenn og aðrir félagsmenn hafi verið að leggja mikið á sig til að verkefnið gangi upp.

Hópurinn fékk Andra Guðmundsson hljómborðsleikara Írafárs og íbúa á Nesinu til að setja saman hljómsveit sem fékk nafnið Verbúðarbandið.
„Hann fékk félaga sinn í Írafár, Vigni gítarleikara til að stýra bandinu, auk þess er með þeim einvala lið, Doddi Þorvalds trommari, Tobbi Sig sem spilar á allt og bassaleikarinn Árni Þór Guðjónsson.

Herbert Guðmundsson, Selma Björnsdóttir og Stefán Hilmarsson troða öll upp á Verbúðarballi í kvöld.

Gunnlaugur segir merkja mikinn hita á Nesinu fyrir ballinu og fjórum dögum fyrir kvöldið stóra voru 850 miðar seldir.

„Það stefnir allt í að verði uppselt, við heyrum af partýum um allt Nesið og allan Vesturbæ og við biðlum til þeirra að byrja partýin snemma og vera mætt í íþróttahúsið milli 21:00 og 22:00. n