„Þessi minningarathöfn var mjög hjartnæm og alvöruþrungin,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, en hann tók í gær þátt í athöfn í París þar sem þess var minnst að hundrað ár voru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

„Macron var auðvitað í aðalhlutverki hérna sem gestgjafi og flutti ræður um mikilvægi þess að læra af þeim hildarleik sem fyrri heimsstyrjöldin var og minnti þar meðal annars á nauðsyn þess að gjalda varhug við öfgum þjóðernishyggju.“

Guðni segir mikið til í þeim orðum Macron að gera þurfi skýran greinarmun á heilbrigðri og jákvæðri ættjarðarást og hins vegar þjóðrembu, öfgum, fordómum og illsku.

Forsetinn tók svo ásamt þjóðarleiðtogum hátt í hundrað ríkja þátt í friðarráðstefnu sem hófst síðar um daginn.

„Það voru auðvitað forréttindi að fá að njóta þessa viðburðar en mestu skiptir að okkur sem nú erum uppi festist í minni hversu skelfilegt stríðið var. Til þess var nú leikurinn gerður.“

Á ráðstefnunni tók Guðni þátt í pallborði ásamt forsetum Finnlands, Króatíu og Slóveníu þar sem áskoranir framtíðar voru ræddar.