Advania hefur þróað hugbúnað og veitir ráðgjöf sem auðveldar fyrirtækjum að standast jafnlaunavottun fyrir settan tíma en rúmlega 200 fyrirtæki eiga enn eftir að fá jafnlaunavottun.

Fyrirtæki og stofnanir þar sem 250 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli ber að öðlast vottun eigi síðar en 31. desember 2019 samkvæmt lögum. Tíminn er að renna út fyrir mörg fyrirtæki en heimild er til að beita dagsektum allt að fimmtíu þúsund krónum á dag hafi þessi fyrirtæki ekki hlotið jafnlaunavottun fyrir lok þessa árs.

„En þetta gerist ekki að sjálfu sér og það er búið að setja lög um þetta. Við eigum að fylgja löggjafanum.“

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, segir alveg mögulegt fyrir fyrirtæki að klára verkefnið fyrir árslok.

„Að sjálfsögðu er alveg mögulegt að standast jafnlaunavottun fyrir árslok. Fyrir minni fyrirtæki væri hægt að klára þetta á þremur mánuðum. En ef fyrirtæki er með fjölbreytta flóru starfa þá tekur það lengri tíma. Miðað við okkar reynslu er það alveg mögulegt. Við erum með 630 manna fyrirtæki og það er töluvert síðan við kláruðum þetta,“ segir Ægir Már í samtali við Fréttablaðið.

„Ég held að mörg fyrirtæki hafi haft önnur áreiðandi verkefni og það hafi ekki gefist tíma til að hefja ferlið. En þetta gerist ekki að sjálfu sér og það er búið að setja lög um þetta. Við eigum að fylgja löggjafanum,“ segir Ægir Már.

Jafnlaunavottun var lögfest í júní árið 2017 og felur hún í sér að öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn beri að gæta þess að ekki sé mismunun í launum eftir kyni. Jafnlaunavottun er langt og krefjandi verkefni og segir Ægir það galið að nýta ekki tæknina.

„Við bjuggum til létta hugbúnaðarlausn til að halda utan um þetta ferli. Hugbúnaðurinn sjálfur mun aldrei leysa þetta en hann hjálpar. Á endanum þá snýst þetta um ákvarðanatöku, vinnubrögð og rökstuðning.“