Rétt eftir klukkan eitt í dag var stór flugeldur sprengdur inni á salerni í Hlíðaskóla. Þetta kemur fram í tölvupósti sem skólastjóri sendi foreldrum í dag.

„Hurðin var opin og er það mesta mildi að þeir sem áttu leið fram hjá slösuðust ekki. Þetta er að mínu mati tilraun til íkveikju, almennu öryggi nemenda og starfsfólks var ógnað,“ segir í pósti Berglindar Stefánsdóttur, skólastjóra.

Fram kemur að lögreglan hafi verið kölluð til vegna málsins.

„Ég óska eftir því að þið ræðið þetta alvarlega mál við börnin ykkar og ef að einhverjir eru með upplýsingar um málið þá væri gott að fá þær ábendingar.“

Þetta er í þriðja skipti á stuttum tíma þar sem atvik sem þetta á sér stað í Hlíðaskóla, en þann 5. janúar var sprengju kastað inn á unglingagang skólans, með þeim af­leiðingum að mikill hvellur og reykur myndaðist og bruna­kerfi skólans fór í gang. Og daginn áður átti samskonar atvik sér stað.