Alvarlegt umferðarslys varð á áttunda tímanum í kvöld á Hnífsdalsvegi á milli Hnífsdals og Ísafjarðar þar sem tveir bílar lentu í árekstri. Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð var virkjuð vegna slyssins.

Tvær sjúkraflutningavélar voru sendar til að flytja slasaða vegna alvarleika slyssins og telur Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, að önnur vélin sé þegar lent.

Fréttin verður uppfærð.

UPPFÆRT 22:07

„Það voru fimm sem voru flutt hingað á sjúkrahúsið á Ísafirði," segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. „Tvær sjúkraflugvélar eru í þessum töluðu orðum úti á flugvelli þar sem áhafnirnar eru að búa sjúklingana til flutnings suður.“

Þrír þeirra slösuðu verða fyrst fluttir og síðan hinir tveir. Gylfi segir að hluti fólksins hafi slasast alvarlega.

„Það var mikill viðbúnaður enda er hluti fólksins alvarlega slasaður. Heilbrigðisstofnunin fékk mjög stórt útkall og lögreglan og Rauði krossinn eru líka hérna að veita aðstoð.“