Stúlka, nemandi við Menntaskólanna á Akureyri, slasaðist þegar dimmitering útskriftarnema skólans fór fram í gær. Fyrst var greint frá á vef Vikudags.

Þar segir að stúlkan hafi klemmst þegar hlera á flutningavagni var lokað. Slysið hafi verið nokkuð alvarlegt en stúlkan flutt til Reykjavíkur til aðhlynningar.

Vikudagur hefur eftir Jóni Má Héðinssyni, skólameistara Menntaskólans á Akureyri, að nemendur og starfsfólk séu harmi slegin vegna málsins. „Hugur okkar allra er hjá stúlkunni,“ segir Jón Már og bætir við að um algjört óhapp hafi verið að ræða.

„Þarna var misskilningur á milli bílstjórans og nemenda sem olli slysinu. Það voru engin fíflalæti í gangi þegar þetta gerðist og um algjört óhapp að ræða.“

Dimmitering útskriftarnema MA fór fram í gær sem fyrr segir. Útskrift skólans fer síðan fram 17. júní næstkomandi.

Fréttablaðið náði ekki tali af skólastjórnendum Menntaskólans á Akureyri eða lögreglunni á Norðurlandi eystra við vinnslu fréttarinnar.