Sigríður Dögg Auðunsdóttir, nýkjörinn formaður Blaðamannafélags Íslands, segir stuðningyfirlýsingu namibískra blaðamanna við íslenska blaðamenn til marks um hversu alvarlegt ófrægingarstríð hefur verið rekið gegn íslenskum fréttamönnum.

Í gær, á alþjóðlegum degi fjömiðlafrelsis, lýstu Namibískir blaðamenn yfir stuðningi við íslenska blaðamann vegna aðfarar Samherja að blaðamönnum RÚV vegna umfjöllunar Kveiks um starfsemi sjávarútvegsfyrirtækisins í Namibíu. Félagið skoraði á stjórnendur fjölmiðla og yfirvöld að tryggja fjölmiðlafrelsi á Íslandi. Sigríður Dögg segir mikilvægt stéttin standi saman, hvort sem það er innanlands eða yfir landamæri.

„Kollegar okkar í Namibíu þekkja þetta mál inn og út og veita starfsbræðrum sínum hér á Íslandi nauðsynlegan stuðning því þeir hafa að sjálfsögðu heyrt af því sem hefur farið fram; að Samherji hafi stundað áróðursherferð gegn þessum blaðamönnum. Eðlilega vekur það athygli blaðamanna annars staðar í heiminum því það er mikilvægt að fjölmiðlamenn fái að starfa hindrunarlaust og án ofsókna og ofbeldis,“ segir Sigríður Dögg.

Stuðningur stjórnenda skiptir lykilmáli

Aðspurð hvort hún telji stjórnendur RÚV hafa stutt nægilega vel við bakið á sínum blaðamönnum segir Sigríður að þeir verði að svara fyrir það sjálfir.

„Eðli málsins samkvæmt á ég erfitt með að tjá mig um mína næstu yfirmenn þó ég sé komin í þessa stöðu sem formaður Blaðamannafélags Íslands en auðvitað skiptir stuðningur yfirstjórnar á fjölmiðli gríðarlega miklu máli. Ég hef fundið það sjálf í þeim málum sem ég lent í, þó þau hafi alls ekki verið eins og Helgi og aðrir blaðamenn Kveiks eru að lenda í núna, en ég hef verið gagnrýnd á mjög óvæginn og ósanngjarnan hátt í tengslum við umfjöllun um stór mál á mínum ferli í blaðamennsku og þá skipti stuðningur stjórnenda lykilmáli sem og stuðningur annarra í stéttinni.“

Herferð í krafti auðs

Sigríður Dögg segir óhætt að segja að ákveðin hagsmunaöfl í samfélaginu beiti sér óhóflega í ákveðnum málum, líkt og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti yfir á þingfundi fyrir nokkru. Þetta er ekkert nýtt af nálinni að sögn Sigríðar. Fréttamenn eru vanir því að ráðist sé á manninn þegar vakin er athygli á óþægilegum málum, en nú er þetta með allt öðrum hætti og yfir talsvert lengra tímabil.

„Oft er hjólað í fréttamanninn sem flytur fréttina í stað þess að svara þeirri gagnrýni eða þeim upplýsingum sem koma fram í fréttinni sjálfri. Þetta mál er dæmi um slíkt en núna er þetta gert í krafti auðs. Framleiðsla á svona áróðursmyndböndum kosta ekkert lítið en það virðist ekki draga úr áhuga þeirra á að fara þessa leið í sinni ófrægingarherferð.

Hafa hafnað öllum viðtalsbeiðnum

Sigríður tekur fram að auðvitað eigi blaðamenn að þola gagnrýni.

„Það er nauðsynlegt að blaðamenn séu gagnrýndir í sínum störfum, en gagnrýnin þarf að vera málefnaleg og á eðlilegum forsendum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að einhver geti setið undir linnulausum árásum. Það er eitt að gagnrýna það sem kemur fram í fréttinni og að er annað að reyna grafa undan trúverðugleika og trausti fréttamanns með órökstuddum dylgjum,“ segir Sigríður og tekur fram að enginn sé að banna þeim að svara fyrir sig sem telja sig þess þurfa en fullyrðingar Samherja, um að þeir neyðist til að fara þessa leið til að svara fyrir ásakanir sem fram koma í fréttaskýringum Kveiks, eigi ekki við rök að styðjast.

„Í dæmi Samherja er mikilvægt að það komi fram að þeim hefur allan tímann staðið til boða að koma í viðtal og svara spurningum fréttamanna á þeim vettvangi en þeir hafa alltaf hafnað því.“