Reykjavíkurborg hefur gert lítið sem ekkert þrátt fyrir að íbúi í Elliðarádal varaði við olíuslysi síðastliðinn fimmtudag, en staðan hefur aðeins versnað síðan þá. Slökkvilið og starfsmenn Veitna mættu á svæðið um helgina en hægt er að sjá olíuflekkinn og olíublauta fugla enn, nú þegar þessi frétt er skrifuð.

Þegar olía sest í fiður klessast fjaðrirnar saman, þær hætta að hrinda frá sér vatni og tapa einangrunargildi sínu. Afleiðingarnar eru þær að fuglarnir geta ekki lengur haldið á sér hita og hætta er á ofkælingu.
Mynd: Hallur

Hallur Heiðar Hallsson, íbúi á Skálará neðan Stekkjarbakka, sá olíublautan máv síðustu viku og stuttu síðar tvo tjalda sem voru orðnir svartir á maganum og hann áttaði sig strax á því að eitthvað hefði farið úrskeiðis. Hann hringdi í borgina um miðja síðustu viku og greindi frá olíuslysinu en fékk ekki samband við Umhverfisstofnun, þrátt fyrir að hafa beðið um það. Fékk hann þau svör um að skilaboðunum yrðu komið áleiðis, en ekkert var aðhafst í málinu. Skilaboðin um alvarleika málsins komust greinilega ekki til skila.

„Svo á laugardeginum sá ég gæsaungana útataða í olíu og áttaði mig á því að ekkert hefði verið gert í málinu,“ segir Hallur í samtali við Fréttablaðið. Ákvað hann þá að hringja í lögregluna og slökkviliðið og fékk þá loksins einhver viðbrögð. Eins hafði hann samband við dýraþjónustu og gatnamálayfirvöld en enn og aftur virtust viðbrögðin sljó og margir sem bentu á aðra og sögðu lítið hægt að gera um helgi.

Olíurák.
Mynd: Hallur

Viðvarandi vandamál

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona gerist. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál í fimmtán ár og fulltrúi frá Umhverfisstofnun kemur á hverju ári að skoða þetta. Olíugildrurnar hjá þvottastöðunum virðast fyllast eftir mikla rigningu og þá flæðir yfir í læk sem rennur út í árnar,“ segir Hallur í samtali við Fréttablaðið.

Segist hann áður hafa fundið bensínlykt af læknum. „Ef ég hefði verið með eldspýtu við lækinn í hitt í fyrra, hefði ég getað kveikt í honum.“

Margir olíublautir fuglar deyja því úr kulda, ofþornun, hungri eða verða einfaldlega úrvinda við það að reyna að bjarga sér.
Mynd: Hallur

Erfitt að ná í starfsmenn Reykjavíkurborgar um helgar

Það var ekki fyrr en um 10 leytið á laugardagskvöldi sem maður frá Veitum mætti á svæðið en í kjölfarið kom slökkviliðið til að meta ástandið.

„Slökkviliðið vildi setja felliefni í þetta til að eyða þessum olíuflekk en borgin vildi það ekki því þá myndi leðjan fara á botninn og það var ekki í lagi að þeirra mati. Þá fékk borgin slökkviliðið til að girða þetta af.“

Hallur var að eigin sögn orðin þreyttur á aðgerðarleysinu og ákvað sjálfur að setja hey á olíuflekkinn sem hann fékk frá hestamönnum í Árbæ og spurði starfsmann Veitna hvort væri hægt að ræsa út lið hjá húsdýragarðinum til að ná í meira sag og hey, sem þau eiga nóg af. Fékk hann þau svör að það mætti ekki gera. Ekki fékk hann svör við því en svo virðist sem erfitt sé að ná í starfsmenn Reykjavíkurborgar í helgarfríi þrátt fyrir að um sé að ræða umhverfisslys í einni vinsælustu náttúruperlu Reykjavíkurborgar.

Hægvirkt borgarapparat

Aðspurður um stöðuna sem Hallur lítið hafa breyst. Það sé enn ekki búið að leysa málið þrátt fyrir að það sé margt hægt að gera að hans mati.

„Þetta er ekki ennþá komið af stað, olíuflekkurnir er þarna ennþá en ég vona að heyið hafi hjálpað eitthvað. Ég er furðu lostinn yfir þessum viðbrögðum. Allir segjast vilja hjálpa en gera svo ekkert sjálfir. Það eru bara hringingar. Þetta borgarapparat er orðið svo hægvirkt að það er enginn að bregðast við. Það hefði kannski bara átt að koma með vatnssugu og hreinsa þetta upp en þá sögðu þeir mér að hún myndi eyðileggjast. Hvað er ein suga þegar náttúran og fuglarnir eru að drukkna í olíu?“

Kort sem Hallur sendi á Reykjavíkurborg í síðustu viku til að sýna uppruna olíulekans.
Mynd: Hallur

Uppfært 14.6.2021, 15:30

Reykjavíkurborg og Veitur hafna því alfarið að ekki hafi verið brugðist við ábendingum um olíuleka í Elliðaám, þvert á móti sé litið á atvikið alvarlegum augum.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að um leið og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Veitur heyrðu af málinu á laugardagskvöld hafi verið haft samband við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sem brást umsvifalaust við með því að koma upp mengunarvörnum. Starfsmaður Veitna á bakvakt var kominn á staðinn klukkan rétt rúmlega 22:00. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins voru í samskiptum við Veitur og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á laugardagskvöld og á staðnum á sunnudag og veittu ráðgjöf við hreinsunarstörfin.

Ábending barst Dýraþjónustu Reykjavíkur á fimmtudag í gegnum símaver Reykjavíkurborgar um að það væri olíublaut önd á vappi í nágrenni við Aktu Taktu. Starfsmenn fóru strax á staðinn en fundu enga olíublauta fugla.