Mikil óánægja ríkir í stjórnarandstöðunni eftir að forseti Alþingis sleit þingfundi áður en óundirbúnar fyrirspurnir hófust í morgun.

„Það er alvarlegt lýðræðismál ef þingið fær ekki að starfa - ef þingfólk fær ekki að spyrja ráðherra," segir Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkgingarinnar í samtali við Fréttablaðið.

Fundinum var slitið eftir að Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata kvaddi sér hljóðs og taldi á þriðja tug þingmanna í þingsal. „Það er komin stefna innan Alþingis að það megi ekki vera meira en 20 þingmenn í efri deild,“ sagði Jón Þór Ólafsson, í ræðustóli og taldi svo tuttugu og sex þingmenn í salnum. Þá sleit Steingrímur J Sigfússon forseti Alþingis, þingfundi.

Stjórnin nýti sér ástandið í samfélaginu

Aðrir þingmenn sem Fréttablaðið ræddi við segja stjórnarmeirihlutann notfæra sér það meðvirkniástand sem ríki í samfélaginu og hafa miklar áhyggjur af því að þinginu og eftirlitshluverki þess verði kippt úr sambandi nú þegar verulega reyni á virkni þess.

Stjórnarandstaðan hafi verið mjög samvinnufús til þessa en verði engu að síður að gegna þeim skyldum sem á þingmönnum hvíli og hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Ágreiningsmál á dagskrá þvert á samkomulag

Það valdi einnig vonbrigðum að mál sem ágreiningur ríki um hafi verið sett á dagskrá þingfundar en samið hafi verið um að eingöngu brýn mál sem tengist faraldrinum yrðu tekin á dagskrá þingsins meðan starfsemi þess er í viðkvæmri stöðu vegna samkomubannsins. Vísa þingmenn meðal annars til umdeilds máls samgönguráðherra um veggjöld sem sett var á dagskrá þingfundar í dag.

Búist er við að fundað verði með formönnum þingflokka í dag en samkvæmt heimildum blaðsins hafa formenn stjórnmálaflokkana ekki verið boðaðir til fundar með forseta þingsins.