„Dýralæknirinn talaði um að þessir miklu áverkar væru eftir afmarkað og staðbundið högg í andlitið sem gæti ekki verið eftir slagsmál, bíl eða fall. Þetta væri lík­legast af manna­völdum til dæmis þungt högg eða spark,“ segir Sesselja Jóns Hersteinsdóttir sem leitar nú vitna eftir að hafa komið að ketti sínum Tiffany alblóðugum á heimili hennar við Sólvallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur á föstudag. Hún segir blóð hafa fossað úr munni kattarins og að sýnilegir áverkar hafi verið höfði hans.

„Maður getur að sjálfsögðu ekki vitað hvað gerðist, en það væri óskandi að það kæmi í ljós,“ segir Sesselja í samtali við Fréttablaðið. Hún lýsir kettinum sem blíðum og segir hann þiggja klapp frá flestum.

Áverkarnir líklega af mannavöldum

„Við brunuðum með hana á neyðar­vakt dýra­lækna og hún fór beint í að­gerð. Einn jaxl datt úr með rótum og fjar­lægja þurfti tvo jaxla í við­bót á­samt eina víg­tönn. Síðan þurfti að sauma tvo senti­metra langa skurði á tunguna eftir tennurnar. Dýra­læknirinn talaði um að þessir miklu á­verkar væru eftir af­markað og stað­bundið högg í and­litið sem gæti ekki verið eftir slags­mál, bíl eða fall. Þetta væri lík­legast af manna­völdum til dæmis þungt högg eða spark. En við getum auð­vitað ekki vitað hvað gerðist og óskum því eftir vitnum,“ segir Sesselja.

Í kjöl­far heim­sóknar þeirra til dýra­læknisins fór Sesselja heim með Tiffany eftir að hún fékk vökva, sýkla­lyf og verkja­lyf.

„Hún var vönkuð eftir svæfinguna og var að jafna sig en var mjög slöpp, enda hafði hún misst mjög mikið blóð. Eftir mið­nætti hrakaði henni mjög og var hún orðin alveg köld og líf­vana. Allur litur var farinn úr trýninu, þófunum og tann­holdinu en hún fékk hjúkrun alla nóttina og lá á hita­teppi og með hita­teppi ofan á sér. Á laugar­dags­morgun fór loksins að koma líf í hana en hún gat þó ekki staðið upp né haldið haus,“ segir Sesselja.

Vilja vita hvað gerðist

Dýralæknirinn taldi áverkana það alvarlega að Sesselja var beðin um að kveðja köttinn þessa nótt. Tiffany er hins vegar enn á lífi og er undir eftirliti dýralækna.

„Í dag er Tiffany betri, fær verkja­lyf og sjúkra­mat og við erum enda­laust þakk­lát fyrir að hún lifði þessar raunir af, en viljum mjög gjarnan vita hvað gerðist. Ef ein­hver varð vitni að ein­hverju þessu við­komandi, lík­lega við Sól­valla­götu, Bræðra­borgar­stíg eða Ás­valla­götu, mögu­lega líka Há­valla­götu værum við mjög þakk­lát að fá vit­neskju um það.“