Hæstiréttur ómerkti í gær dóm Landsréttar um sakfellingu og þriggja ára fangelsisdóm yfir karlmanni fyrir kynferðisbrot gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, fyrir að hafa barnaklám í vörslum sínum og vörslur fíkniefna.

Í dómi Hæstaréttar er sönnunarmat dómara Landsréttar harðlega gagnrýnt. Maðurinn var sakfelldur fyrir vörslur barnakláms og fíkniefna í héraði en sýknaður af kynferðisbrotinu, meðal annars með vísan til þess að framburður mannsins hefði verið stöðugur bæði hjá lögreglu og fyrir dómi en framburður brotaþola hefði verið misvísandi og ekki væri hægt að útiloka áhrif annarra á framburð hennar.

Maðurinn var hins vegar sakfelldur fyrir alla ákæruliði í Landsrétti.

Sakfelling í einu broti notuð sem sönnun í öðru

Í Landsrétti segir um framburð ákærða að hann hafi verið skýr og stöðugur hjá lögreglu og fyrir dómi. Við mat á trúverðugleika frásagnar ákærða skipti á hinn bóginn máli að hann hafi ítrekað skoðað efni á netinu sem sýni börn á kynferðislegan hátt, en hann hafði áður með dóminum verið fundinn sekur um þá háttsemi samkvæmt 2. lið ákæru. Af þessu er svo dregin sú ályktun að framburður hans sé að nokkru leyti „ótrúverðugur um atriði sem hafa þýðingu við mat á sönnun í málinu.“

Hæstiréttur er ekki sáttur við þessa ályktun Landsréttar.

„Verður dómurinn ekki skilinn á annan veg en að með þessu sé vísað til sakfellingarinnar samkvæmt 2. lið ákæru, enda ekkert annað atriði nefnt sem gæti dregið úr trúverðugleika frásagnar ákærða,“ segir í forsendum Hæstaréttar.

Vísað er til dómafordæma réttarins um að sakfelling fyrir eitt brot verði ekki notuð sem sönnun fyrir öðru broti, enda verði hvert brot að sæta sjálfstæðu mati. Með þessum annmarka á sönnunarmati Landsréttar hafi ákærði ekki notið þess ef vafi lék um sekt hans eins og hann á rétt á samkvæmt stjórnarskránni.

Um framburð barnsins segir í Hæstarétti að hann hafi ekki verið eins stöðugur og staðhæft sé í dómi Landsréttar. Hann hafi breyst frá einni skýrslutöku til annarrar. Á því kunni þó að vera skýringar og síðari framburður stúlkunnar kunni að vera trúverðugur þrátt fyrir misræmið. Landsrétti hafi hins vegar borið að meta hvort ástæður væru fyrir breyttum framburði hennar.

Sönnunarbyrðinni snúið við

Þá vísar Hæstiréttur til þess að Landsréttur fallist á með ákæruvaldinu að engar „áreiðanlegar“ vísbendingar væru um að barninu hefðu verið lögð orð í munn og framburður hennar þannig undir undir áhrifum annarra, einkum móður.

Hæstiréttur gagnrýnir þessa ályktun Landsréttar, sem er er andstæð mati héraðsdóms sem taldi ekki hægt að útiloka áhrif annarra.

Um þetta segir í dómi Hæstaréttar: „Ef vísbendingar voru um að aðrir hefðu haft áhrif á framburð brotaþola bar að leggja mat á hvaða áhrif það hefði á sönnunargildi framburðar barnsins. Í því sambandi skiptir ekki máli hvort vísbendingar eru áreiðanlegar eins og segir í dómi Landsréttar. Verða ekki gerðar auknar kröfur til sönnunar að því leyti ákærða í óhag enda færi það í bága við [ákvæði sakamálalaga] um að virða beri vafa við sönnun honum í hag. Hér er því jafnframt um að ræða annmarka á aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi.“

Verulegir annmarkar á aðferð við sönnunarmat

Samandregið mat Hæstaréttar er að svo verulegir annmarkar séu á sönnunarmati Landsréttar að ómerkja þurfi dóminn og vísa málinu aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Tekið er fram í niðurlagi dóms Hæstaréttar að hann hafi eingöngu dæmt um þá aðferð sem beitt var við sönnunarmatið og ekki tekið afstöðu til þess hvort þær sakir sem ákært er fyrir teljist sannaðar.

Kennslustund um sönnunarmat

Með tilkomu Landsréttar sem áfrýjunardómstóls hefur hlutverk Hæstaréttar breyst umtalsvert. Hann hefur nú meðal annars því hlutverki að gegna að fjalla um mál sem hafa almennt gildi og geta þannig veitt dómstólum í landinu leiðbeinandi fordæmi. Í þessum dómi má segja að Hæstiréttur gefi dómendum kennslustund um sönnunarmat í sakamálum, með hliðsjón af stjórnarskrárvörðum réttindum sakaðs manns.

Í fyrsta kafla, þriðja hluta dómsins fer rétturinn yfir helstu lagareglur sakamálalaga um sönnunarmatið og þau ákvæði stjórnarskrár sem máli skipta. Vísað er til 109. gr. sakamálalaga sem gefur þá leiðbeiningu til dómara að hann meti hverju sinni „hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé komin fram um atriði sem varði bæði sekt og refsiákvörðun, „þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sönnunargögn.“

Jafnframt má mat dómara við sönnun hvorki vera andstætt lögmálum rökfræðinnar né vísindalegri eða almennri þekkingu.

Svo segir í dómi Hæstaréttar: „Framangreind ákvæði mæla fyrir um það sem nefnt hefur verið hið frjálsa sönnunarmat dómara og er þá átt við að sönnunarmatið sé ekki lögbundið, eins og gilti eftir réttarfarsreglum á öldum áður. Í því felst að málsatvik verða sönnuð með hverri þeirri aðferð og gögnum sem haft geta áhrif til sönnunar eftir heilbrigðri skynsemi og mannlegri reynslu. Jafnframt má mat dómara við sönnun hvorki vera andstætt lögmálum rökfræðinnar né vísindalegri eða almennri þekkingu. Enn fremur verður matið ekki reist eingöngu á huglægum atriðum og heldur ekki á ómálefnalegum sjónarmiðum eins og persónulegum skoðunum dómara um menn eða málefni.

Markmiðið að leiða hið sanna í ljós

Svo er fjallað um markmið hins frjálsa sönnunarmats dómara en það sé að komast að réttri niðurstöðu í samræmi við sannleiksregluna, sem er meginregla um að leiða skuli hið sanna í ljós.

„Markmiðið með hinu frjálsa sönnunarmati dómara er að komast að réttri niðurstöðu í samræmi við þá meginreglu sakamálaréttarfars að leiða skuli hið sanna í ljós en hún er nefnd sannleiksreglan.“

Ákæruvaldið beri sönnunarbyrðina

Þá víkur Hæstiréttur að meginreglunni um að sönnunarbyrði um sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu. Markmið rannsóknar sakamáls sé að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákærandi geti tekið afstöðu til þess hvort sækja eigi mann til saka og til að afla gagna til undirbúnings máls.

Ekki nóg með að ákæruvaldið þurfi að axla sönnunarbyrðina heldur þurfi að sanna sekt ákærða svo að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, segir í dómi Hæstaréttar.

Vafa verði að skýra ákærða í hag

Kennslustund réttarins lýkur svo með vísan til grundvallar réttinda sakaðra manna:

„Af því leiðir að vafa um sönnun sektar verður að skýra ákærða í hag. Samhliða gildir sú regla að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi eftir lögum nr. 62/1994.“